Jón Ólafur Björg­vins­son hefur sent For­laginu kröfu­bréf vegna bókarinnar Síldar­árin 1867-1969, þar sem hann krefst þess að dreifingu bókarinnar verði hætt þar til sættir nást á milli hans og Páls Bald­vins Baldins­son, höfundar bókarinnar og Forlagsins. Kröfubréfið var birt á vefsíðunni Trölli.is, og var Forlaginu þar gefinn frestur til sjöunda febrúar til að taka bókina úr dreifingu.

Framkvæmdastjóri Forlagsins hafði ekki heyrt af kröfu Jóns þegar Fréttablaðið ræddi við hann.

Brotið gegn höfundar­heiðri

Forsaga málsins er að Jón telur ákveðna hluta úr bókinni brjóta gegn höfundar­rétti sínum þar sem bæði þýðingar hans og heimilda­vinna sé tekin nánast orð­rétt frá fyrri skrifum hans. Þá telur hann að til­vísunum í verk hans sé á­bóta­vant.

Páll Bald­vin hefur áður beðist af­sökunar á því að mis­tök hafi verið gerð við skráningu heimilda og að Jón hafi verið beðinn af­sökunar.

„Þá telur um­bjóðandi minn jafn­framt að með því að breyta fyrir­sögn og fram­setningu textans sé brotið gegn höfunda­heiðri hans,“ stendur í kröfu­bréfinu sem lög­mann­stofan Logos sendir fyrir hönd hans.

Hafði ekki heyrt af kröfu­bréfinu

Í kröfu­bréfinu, sem er dag­sett þann 31. janúar síðast­liðinn er farið fram á að dreifingu bókarinnar verði hætt fyrir sjöunda febrúar. Verði það ekki gert megi for­lagið eiga von á frekari að­gerðum. „Þar á meðal að farið verði fram á lög­bann á dreifingu bókarinnar.“

Egill Örn Jóhanns­son, fram­kvæmda­stjóri For­lagsins, hafði ekki heyrt af kröfu Jóns Ólafs þegar Frétta­blaðið ræddi við hann.

„Þú eigin­lega verður bara að gefa mér tæki­færi á að kynna mér um hvað málið snýst,“ segir Egill.

Snýst um lítinn hluta bókarinnar

Í kröfu­bréfinu segir að Jón Ólafur hafi leitast eftir því að leysa málið í sátt. „Hann telur hins vegar að vegið sé að höfundar­heiðri sínum og skrif hans mis­notuð.“

Egill segist ekki hafa verið í sam­skiptum við Jón upp á síð­kastið. „Ekki síðan fyrir þremur vikum síðan, eitt­hvað svo­leiðis.“

Hann segir að málið snúist einungis um lítið brot af bókinni. „Eitt­hvað agnar­ögn í bókinni, þannig að ég veit ekki hvernig lög­bann nær utan um það. En ég þarf bara að kynna mér þetta.“ Að öðru leyti geti hann ekki tjáð sig um málið að svo stöddu.