„Ég hafna því eindregið að hafa beitt nokkurn mann hótunum í tengslum við framangreint.“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra um ásakanir Unnar Berg­lindar Frið­riks­dóttur, for­manns Sjálf­stæðis­félagsins í Kópa­vogi.

Fyrr í dag sagðist Unnur hafa fengið hótanir frá „jakkafataklæddum mönnum innan flokksins“. Þar á meðal væri einn háttsettur maður, en í kjölfarið greindi hún frá því, í samtali við DV, að um Jón væri að ræða.

„Ég átti eitt stutt símtal við formann Sjálfstæðisfélagsins í Kópavogi sunnudaginn 30. október þar sem ég benti henni á ólögmæti listanna. Ég lýsti áhyggjum mínum af því að ef ekki yrði brugðist við væri hætta á að fáir hefðu heimild til setu á landsfundi fyrir hönd Kópavogs.“ segir Jón í færslu á Facebook.

Hann talar um að í Kópavogi hafi verið komin upp alvarleg staða við val á landsfundarfulltrúum. Jón segir að í stað þess að Sjálfstæðisfélögin í Kópavogi hefðu haldið félagsfundi til þess að staðfesta val sitt á fulltrúum, eins og lög flokksins geri ráð fyrir, þá hafi stjórn fulltrúaráðsins í Kópavogi samþykkt listana.

„Að loknum stjórnarfundi þess ágæta ráðs, en áður en listinn var sendur til skrifstofu Valhallar, var þó fjölda aðila einhliða bætt á listann án þess að það hefði verið borið undir stjórn eða félagsfund. Ekki þarf að fjölyrða um lögmæti þessara vinnubragða.“ bætir hann við.