Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hélt blóðmerar sem bóndi, síðast árið 1985.

Blóðmerahald er umdeildur iðnaður og komst umræðan um blóðtöku úr fylfullum hryssum í hámæli eftir að svissnesku dýraverndarsamtökin Animal Welfare Foundation birtu 20 mínútna myndband sem sýndi dýraníð við blóðtöku á íslenskum sveitabæjum.

Viðbrögðin voru hörð; undirskriftalistar og frumvarp um bann á blóðmerahaldi voru sett fram, hrossaeigendur um allan heim fordæmdu greinina, Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra setti á laggirnar starfshóp til að rannsaka blóðtöku og MAST hóf rannsókn á dýraníði á blóðtökubæjum.

„Jú, það mætti segja að ég sé gamall blóðmerahaldsbóndi,“ segir ráðherrann í samtali við Fréttablaðið. Hann fordæmir dýraníð og segir myndband AWF ekki lýsandi fyrir starfsemina eins og hann þekkti hana. Hann segist hafa haldið blóðmerar ásamt tengdaföður sínum en Jón var bóndi að Barkarstöðum í Miðfirði frá 1981 til 1985.

Fréttablaðið hefur tekið púlsinn á meirihlutaþingmönnum og svo virðist sem frumvarp Ingu Sæland um bann á blóðmerahaldi njóti ekki mikils stuðnings og eru minnkandi líkur á að það verði að lögum. Eins og má sjá í frumvarpinu eru einungis tveir stjórnarflokksmenn meðal meðflutningsmanna, þau Jódís Skúladóttir og Orri Páll Jóhannsson, þingmenn Vinstri grænna.

Aðspurður um afstöðu hans segir Jón að hann bíði eins og allir eftir niðurstöðum úr úttekt starfshóps matvælaráðherra.

„Afkoma þessa bænda skiptir miklu máli. Ég þekki bændur sem myndu aldrei sýna skepnum þessa meðhöndlun, það á að fordæma þessa meðferð en það má ekki bitna á góðum bændum sem gera þetta undir eðlilegum formerkjum, í sátt við allt og alla.“