„Ég næ örugglega að koma einhverju í framkvæmd,“ segir Jón Gunnarsson, verðandi innanríkisráðherra.

„Ég hef áður verið ráðherra í stuttan tíma og kom þá ýmsu til leiðar, ég er ágætur í spretthlaupum,“ bætir hann við.

Spurður hvort það séu honum vonbrigði að hann fái ekki ráðherradóm allt kjörtímabilið, en Guðrún Hafsteinsdóttir mun leysa hann af eftir 18 mánuði, svarar Jón:

„Nei, fyrst og fremst finn ég þakklæti fyrir það traust sem formaðurinn sýnir mér.“

Engin vonbrigði með stutta setu

Ríkisstjórnin mun setja af stað vinnu sérfræðinga um ákvæði stjórnarskrár um Alþingi, kosningar og kjördæmaskipan, svo nokkuð sé nefnt.

„Já, það blasir við eftir kosnningarnar að það þurfi að að minnsta kosti að skoða þau mál gaumgæfilega og finna úrbætur.“

Spurður hvort Jón muni setja einhver sérstök mál á dagfskrá segist hann þurfa tíma til að tjá sig um það, aðeins örstutt sé síðan honum var tjáð að hann yrði ráðherra.

Innanríkisráðuneyti í stjórnarsáttmála:

Meðal málaflokka í innanríkisráðuneytinu eru löggæslumál og málefni útlendinga. Í hinum nýja stjórnarsáttmála eru eftirfarandi aðgerðir áætlaðar í þessum málaflokkum:

Löggæsla:

 • Mikilvægt er að Ísland sé virkur þátttakandi í alþjóðlegri samvinnu vegna netglæpa sem eru skipulagðir þvert á landamæri ríkja auk þess að sinna öflugu forvarna- og rannsóknarstarfi á þessu sviði.
 • Mönnun löggæslunnar þarf að vera í takti við þarfir samfélagsins. Gera þarf tímabundið átak til að fjölga í lögreglunámi á háskólastigi og tryggja þannig aukið öryggi og fagmennsku innan lögreglunnar. Með fjölgun menntaðra lögreglumanna er unnt að bæta þjónustu, stytta rannsóknartíma og auka gæði lögreglustarfa.
 • Endurskoða á bæði sjálfstætt innra og ytra eftirlit með störfum lögreglu. Horft verður til annarra Norðurlandaþjóða og þeirra aðgerða sem best hafa reynst þar.
 • Haga þarf skipulagi og fjölda lögregluembætta og deilda með þeim hætti að sinna megi löggæslustörfum á sem skilvirkastan hátt um allt land.
 • Unnið verður að umbótum í þjónustu og rekstri sýslumanna í samræmi við útgefna framtíðarsýn þar um, auk þess að ráðast í hagræðingu verkefna samhliða stafrænni þróun.
 • Ráðist verður í framhald aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins þegar hún rennur sitt skeið 2022. Þar verður m.a. litið til atriða er varða sáttamiðlun og styttri málsmeðferðartíma.
 • Áfram verður unnið að styttingu boðunarlista í fangelsi og haldið áfram við uppbyggingu á Litla-Hrauni. Stuðlað verður að auknu aðgengi fanga að fjölbreyttri menntun, virkni og stuðningi að afplánun lokinni.

Málefni útlendinga:

 • Mótuð verður skýr og heildstæð stefna í málefnum útlendinga sem miðar að því að fólk sem sest hér að hafi tækifæri til aðlögunar og virkrar þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði.
 • Rík áhersla verður lögð á stuðning til aðlögunar við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra, m.a. gegnum skóla- og frístundastarf og með auknu aðgengi að íslensku- og samfélagsfræðslu. Horft verði til möguleika á móðurmálsfræðslu og túlkaþjónusta efld einkum til að tryggja aðgengi að menntun, heilbrigðisþjónustu og félagslegum réttindum.
 • Lög um útlendinga og lög um atvinnuréttindi útlendinga verða tekin til endurskoðunar með það að markmiði að rýmka ákvæði er varða útgáfu dvalarleyfa á grundvelli atvinnuþátttöku og auka skilvirkni með einföldun ferla. Þá verði þeim sem hér fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið veitt undanþága frá kröfu um atvinnuleyfi. Haft verður samráð við aðila vinnumarkaðarins í þessari vinnu.
 • Umsóknarferli um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir einstaklinga sem sinna störfum sem krefjast sérfræðiþekkingar verður einfaldað.
 • Kerfi og stofnanir sem meta einstaklingsbundnar aðstæður og hagsmuni eiga að vera skilvirk, laga- og regluverk skýrt og mannúðlegt og framkvæmd fullnægjandi. Rýna þarf framkvæmd og stytta málsmeðferðartíma í núverandi kerfi, þannig að tryggja megi hraða og skilvirka afgreiðslu mála í samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna og koma í veg fyrir langvarandi óvissu hjá einstaklingum og fjölskyldum.
 • Áfram verður aukið við móttöku kvótaflóttafólks með áherslu á einstaklinga og fjölskyldur í viðkvæmri stöðu. Samræmd móttaka fólks á flótta í samstarfi ríkis og sveitarfélaga óháð því á hvaða forsendum fólk kemur til landsins verður áfram styrkt.
 • Auka þarf traust og gagnsæi um ákvarðanir útlendingayfirvalda.