„Mér finnst rosa­lega gaman að gera eitt­hvað sem enginn hefur gert áður,“ segir ævin­týra­maðurinn Jón Eggert Guð­munds­son. Jón undir­býr sig nú fyrir mikla þrek­raun en hann ætlar að fara á reið­hjóli þvert yfir Banda­ríkin.

Jón Eggert er bú­settur í Miami á Flórída og ætlar hann að leggja í reisuna miklu mánu­daginn 31. ágúst næst­komandi. Ljóst er að mikið verk er fyrir höndum hjá Jóni og gerir hann ekki ráð fyrir að koma aftur heim fyrr en í nóvember­mánuði. Vegna veðurs á þessum slóðum hyggst hann hjóla til Den­ver í Col­or­ado og klára svo ferðina á næsta ári með því að hjóla frá Den­ver til Port­land í Oregon.

Enginn hjólað þessa leið einn

Jón Eggert er þekktur ævin­týra­maður og er hann til dæmis eini Ís­lendingurinn sem gengið hefur strand­vegahringinn svo­kallaða í kringum Ís­land. Þá leið hefur hann einnig farið á reiðhjóli. Þá setti hann heims­met – ó­stað­fest enn að vísu – fyrir tveimur árum yfir lengstu þrí­þraut í heimi, um 8.000 kíló­metrar. „ Heims­meta­bók Guin­ness er að vinna enn í því að fara yfir gögnin, það getur tekið ein­hver ár,“ segir hann í sam­tali við Frétta­blaðið.

Leiðin sem Jón Eggert ætlar að fara kallast Trans American Rail og liggur leiðin í raun þvert yfir Banda­ríkin, eða frá Norður-Karó­línu og til Port­land í Oregon.

Ferðin er 8.000 kílómetrar í það heila en Jón ætlar að láta 4.000 kílómetra duga í fyrsta legg.

„Þessi leið hefur verið vin­sæl meðal mótor­hjóla­manna en síður fyrir hjól­reiða­menn. Hún er það tækni­lega erfið fyrir reið­hjól að fáir reið­hjóla­menn hafa farið þessa leið. Enginn hefur til dæmis farið hana ein­samall og ég verð þá sá eini ef þetta tekst,“ segir Jón Eggert sem er 52 ára kerfis­fræðingur.

Getur drukkið úr drullu­pollum

Eins og gefur að skilja þarf Jón Eggert að taka með sér vistir í ferða­lagið, en hann reiknar með að vera með um 50 kíló auka­lega á reið­hjólinu.

„Það eru verslanir og smá þorp á leiðinni sem ég mun nýta mér þegar færi gefst. Ég er með tölu­vert af mat með mér, ég er með þurr­mat sem ég bleyti upp og ég er líka með búnað sem gerir mér kleift að hreinsa vatn. Ég get til dæmis tekið vatn úr drullu­pollum og breytt því í drykkjan­legt vatn.“

Jón hló dátt þegar blaða­maður spurði hann hvort þessi undra­búnaður væri svo full­kominn að hann gæti til dæmis endur­nýtt þvag ef í harð­bakkann slær. „Ég hef reyndar ekki prófað það, en hver veit? – ég gæti prófað það í neyð,“ segir hann en bætir við að búnaðurinn sé vissu­lega aðal­lega hugsaður fyrir drullu­polla eða lækjar­sprænur.

Jón verður með gervi­hnatta­síma með sér og getur því kallað eftir að­stoð ef eitt­hvað kemur upp á. Hann á von á því að rekast á mótor­hjóla­menn á leiðinni en hann reiknar ekki með því að margir verði á ferðinni. „Annars verð ég svona til­tölu­lega einn alla ferðina. Það er ekki mikið af bílum eða þannig á þessum slóðum.“

Ætlar að keyra heim til Miami

Jón mun að stærstum hluta gista í tjaldi sem hann tekur með sér en hann ætlar einnig að gista á hótelum þegar færi gefst. Sem fyrr segir er leiðin 8.000 kíló­metrar í það heila en til Den­ver eru um fjögur þúsund kíló­metrar. Það tekur tíma að fara slíka vega­lengd á reið­hjóli enda er þetta ekki bara beinn og breiður vegur sem hann mun hjóla eftir, síður en svo.

„Ég geri ráð fyrir að vera um tvo mánuði með þessa 4.000 kíló­metra,“ segir hann og reiknar með að vera kominn til Den­ver í Col­or­ado í nóvember. Þar ætlar hann að leigja sér bíl og keyra heim til Miami þar sem hann ætlar að eyða vetrar­mánuðunum. Þegar fer að vora hyggst hann svo klára reisuna.

Vill leika sama leik og Ewan McGregor

Jón Eggert gengur með stærri draum í maganum en að hjóla þvert yfir Banda­ríkin, en það er að hjóla hringinn í kringum hnöttinn – eða því sem næst.

„Mig langar að hjóla sömu leið og Ewan McGregor gerði á mótor­hjóli með fé­laga sínum,“ segir Jón en um það ævin­týri var gerð heimildar­myndin Long Way Round. Þá hjóluðu McGregor, þekktur leikari sem margir kannast við, og fé­lagi hans, Charl­ey Boorman, frá London til New York en fóru lengri leiðina svo­kölluðu.

„Þeir lögðu af stað frá Bret­landi til Magadan í Síberíu. Þeir tóku svo flug til Alaska og fóru á mótor­hjóli til New York. Ég er mikið að spá í að fara þessa sömu eða svipaða leið á reið­hjóli. Það hefur enginn gert það áður,“ segir Jón sem segist vita að nokkrir hjól­reiða­menn séu að skoða það vand­lega að fara þessa leið.

Ágætis upphitun

„Vandinn er í raun og veru sá að maður er að fara í gegnum tækni­lega mjög erfið svæði. Þessi leið sem ég er að fara núna er í rauninni æfing fyrir það. Erfiðustu tækni­legu leiðirnar í Síberíu og Mongólíu eru svipaðar þeim sem ég er að fara núna,“ segir hann og bætir við að ferða­lagið næstu mánuði sé á­kveðinn mæli­kvarði á hvað hann getur. Ef hann geti ekki klárað leiðina núna séu engar líkur á að hann geti klárað hina leiðina. Sú leið sem McGregor og Boorman fóru eru 31 þúsund kíló­metrar.

Jón segist vera búinn að undir­búa sig vel og vand­lega en hann hefur hjólað stíft síðast­liðin tíu ár. Hann hefur lagt mörg þúsund kíló­metra að baki á undan­förnum árum og er spenntur fyrir ferðinni sem er fram undan.

„Þetta verður gaman,“ segir hann að lokum.