Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, fjallar um það í færslu á Facebook-síðu sinni að þingmenn, bæði fyrrverandi og núverandi, hafi kvartað undan því og talið það „ólíðandi“ að mótmælendur hafi vegið að heiðri Jóns Sigurðssonar, forseta, með því að hengja skilti á styttu hans á meðan mótmælum þeirra stendur.

Þorsteinn bendir þó á, í færslu sinni, að Jón hafi verið virkur mótmælandi í hinum ýmsu mótmælum sem farið hafa fram á Austurvelli og birtir ýmsar myndir því til stuðnings á síðu sinni.

„Hann hefur klæðst bleikum kjól til stuðnings kynjajafnrétti og álpappír til að mótmæla stóriðju. Það kemur kannski ekki á óvart enda Jón einn þekktasti "mótmælandi" þjóðarinnar sjálfur,“ segir Þorsteinn.

Hann veltir þeirri spurningu síðan fram hvort það hafi skipt þingmennina máli hverjir hafi verið að mótmæla. En í þetta skiptið voru það hópur flóttafólks. Þorsteinn segir að ekki skipti máli um hver ræðir. Við eigum öll réttinn á þvi að mótmæla og það sé „merki heilbrigðs lýðræðisríkis að fólk fái að safnast saman í friði og berjast fyrir réttindum sínum og hagsmunum.“

Hann segir það ekki „móðgun við arfleifð“ okkar sem þjóðar þó að Jón fái tímabundið hlutverk í mótmælum.

„Austurvöllur og styttan af Jóni er táknmynd sjálfstæðis- og frelsisbaráttu okkar sem þjóðar. Það er ágætt að muna að rétturinn til að mótmæla er grundvallarréttur sem tryggður er, m.a. í Mannréttindasáttmála Evrópu, sem við ræðum nú í þinginu af öðrum ástæðum. Við eigum alltaf að virða rétt allra til þess, óháð uppruna, kynþætti eða öðru,“ segir Þorsteinn.