Kostnaður við utanferðir ráðherra hefur rokið upp á þessu ári og er nú 275.713 krónur á hverja ferð, sem er hækkun um næstum 38 þúsund frá fyrra ári. Frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var sett saman, árið 2017, hafa ráðherrar farið 315 sinnum utan og heildarkostnaðurinn er 72.472.816 krónur.

Þetta kemur fram í svörum ráðuneytanna við fyrirspurnum Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata. Að meðaltali hefur hver utanferð ráðherra kostað 230.072 krónur, í dagpeninga, hótelgistingu, fargjöld og annan kostnað.

Svörin eru fyrir árin 2018 til 2022, eða það sem búið er af árinu. En eðli málsins samkvæmt fækkaði ferðum mikið árin 2020 og 2021, sökum faraldursins. Aðeins fóru ráðherrar 17 og 18 ferðir þau árin og sumir ráðherrar fóru ekki utan.

Ferðir Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra hafa að meðaltali kostað ríkissjóð rúmlega 443 þúsund krónur.

Dýrustu ferðirnar voru ferðir Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á fyrra kjörtímabilinu. Í öðru sæti er síðan Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, sem líkt og Jón tók við embætti fyrir ári síðan, en hann hefur aðeins farið í þrjár ferðir.

Mesti heildarkostnaðurinn er hjá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, 12.674.945 krónur, sem skýrist af því að hann gegndi stöðu utanríkisráðherra á fyrra kjörtímabilinu. Þar á eftir kemur Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og fyrrverandi mennta- og menningarráðherra. En hennar ferðir eru þær dýrustu af þeim ráðherrum sem setið hafa allan tímann, tæplega 320 þúsund krónur hver.

Áberandi ódýrustu ferðirnar eru á skrá hjá Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra, aðeins 114.826. Hafa 28 ferðir Sigurðar kostað ríkissjóð minna en 8 ferðir Jóns Gunnarssonar. Flestar ferðir Sigurðar Inga hafa verið á vegum samstarfsráðuneytis Norðurlandanna, sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson situr nú í ásamt félagsmálaráðuneytinu.

Sá ráðherra sem hefur ferðast langminnst miðað við tíma í starfi er Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra og fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Aðeins 8 ferðir á tæpum 5 árum og hver um sig hefur aðeins kostað rúmlega 165 þúsund krónur.

Fréttin uppfærð kl 11:22. 16.12.2022: Dómsmálaráðuneytið sendi röng svör um fargjöld til Alþingis. Í yfirlýsingu frá dómsmálaráðuneytinu kemur fram að mistökin hafa verið leiðrétt gagnvart Alþingi og ekki sé önnur skýring á fyrri tölunni en mannleg mistök.

Yfirlýsingin frá dómsmálráðuneytinu í heild sinni:

„Í svari við fyrir­spurn frá Al­þingi um ferða­kostnað og dag­peninga ráð­herra var far­gjalda­kostnaður Jóns Gunnars­sonar, dóms­mála­ráð­herra árið 2022 sagður vera rúm­lega 2,7 milljónir króna. Hið rétta er að far­gjalda­kostnaður dóms­mála­ráð­herra árið 2022 var kr. 1.586.246. Dóms­mála­ráð­herra fór átta sinnum til út­landa í em­bættis­erindum á tíma­bilinu og er því meðal­ferða­kostnaður, þ.e. saman­lagður kostnaður við far­gjöld, hótel og dag­peninga, í hverri ferð kr. 294.252 en ekki rúmar 444 þúsund krónur eins og hefði mátt ætla af fyrri tölunni. Hefur þetta nú verið leið­rétt gagn­vart Al­þingi. Ekki er önnur skýring á fyrri tölunni en mann­leg mis­tök.“