Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra, velti upp tveimur skýringum á því hvers vegna örlagaríkt matarboðið á Spáni hafi leyst upp. Það hafi annars vegar verið vegna ölvunar og hins vegar hafi hann verið leiddur í gildru.

Aðalmeðferð í máli gegn Jóni Baldvin fer nú fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Jón Baldvin er ákærður fyrir meinta kynferðislega áreitni gagnvart Carmen Jóhannsdóttur. Hún fullyrti árið 2019 að Jón Baldvin hafi strokið rass hennar ákaft í vitna viðurvist í júní 2018.

Jón Baldvin var beðinn um að lýsa matarboðinu. Hann sagði tvo gesti hafa farið upp á þak á meðan undirbúningur stóð yfir. „Mig minnir að Bryndís [Schram, eiginkona Jóns Baldvins innsk. blaðamanns] hafi sent mig upp til að vera félagskapur fyrir gestina, búin að ganga frá diskum og átti að setja glös, svo gerst það að við erum sest,“ lýsti Jón Baldvin. Bryndís og Carmen hafi komið með með matföng.

„Þegar Bryndís og Carmen eru komnar upp og allt tilbúið, sest Bryndís andspænis mér sem gestgjafi,“ sagði Jón Baldvin. Bryndís hafi boðið alla velkomna og haldið stutta ræðu. „Allt í einu gerist það að Laufey Ósk [móðir Carmen innsk. blaðamanns] sprettur upp og biður um yfirlýsingu. Það er eitthvað á þá leið: Jón Baldvin þú átt að biðja dóttur mína afsökunar, þú káfaðir á henni, ég sá það,“ lýst Jón Baldvin áfram sýn sinni á atburðarásina.

„Kom eins og þruma úr heiðskýru lofti, ég skyldi ekki hvað var á seyði. Carmen hafði farið bak við mig og sest í sætið sitt en um leið og Laufey segir þetta sprettur hún upp og lætur sig hverfa. Hún segir: „Mamma ég get talað fyrir mig sjálf, og fer af vettvangi, hún var skamma stund þarna.“

Þá leystist boðið upp. „Því þetta var eins og þruma úr heiðskíru lofti.“

Jón Baldvin ásamt lögmanni sínum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Jón Baldvin sagði að hann hefði verið þrumu lostinn. „Ég hélt að það væri vinasamband á milli okkar Laufeyjar, það eru bréfaskipti til um það en skiptir ekki máli..Áttum ekki von á þessu, ekkert sem gaf tilefni til þess, vorum furðu lostin. Þetta þarfnast skýringa og ég vona að það sé hluti af þessu réttarhaldi að skýra þetta.“

Jón Baldvin sagði að hann hefði haldið ró sinni, hann sagði ekkert tilefni hafa verið fyrir þessu. Hann sagði tvær skýringar á hvers vegna þetta hafi átt sér stað.

„Önnur er að Laufey hafi ekki verð sjálfrátt þetta er ekki henni líkt. Við höfðum verið úti á torgi að horfa á fótbolta. Þegar þorpsbúar horfa á fótbolta er drukkinn bjór, sjálfur drakk ég eitt glas af bjór í fyrri hálfleik og annan í seinni hálfleik. Spænskur bjór er 4,6 prósent, það verður enginn drukkinn af því að skola niður tveimur bjórum, sjónarvottar á torginu sögðu þetta ekki bjórdrykkju hjá Laufeyju. Hún sagði að hún væri vegna veikinda væri hún á sterkum lyfjum og mætti ekki drekka áfengi ofan í það. Sjónarvottar á torginu segja að þær hafi báðar og sér í lagi Laufey drukkið sterkt vín,“ sagði Jón Baldvin. „Getur verið að henni hafi ekki verið sjálfrátt, heldur umhverfst vegna drykkju ofan í sterk lyf. En ég veit ekki.“

Jón Baldvin sagði svo aðra skýringu blasa við. „Hún er þessi: Hvers vegna voru þær þarna komnar? Í hvaða erindum? Var það kannski ekki vináttu heimsókn heldur af ásettu ráði að setja þetta á svið,“ sagði Jón Baldvin hvass. „Get ég trúað því að fólk smygli sér inn á heimili annarra undir yfirskini vináttu, til að setja á svið, til að spilla mannorði gestgjafa, það eru hrikaleg óheilindi, er einhver rök fyrir því?“