Jón Bald­vin Hannibals­son, fyrr­verandi sendi­herra og ráð­herra, var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun af ákæru fyrir kyn­ferðis­lega á­reitni á Spáni sumarið 2018.

Jón Bald­vin greindi sjálfur frá því þegar hann var á­kærður fyrir brotið 7. septem­ber 2020, í að­sendri grein í Morgun­blaðinu. Í á­kæru var hann sakaður um að hafa strokið Car­men Jóhanns­dóttur „utan klæða upp og niður eftir rassi“.

Car­men greindi fyrst frá hinu meinta atviki, sem átti sér stað á Spáni, í við­tali við Stundina. Þar sagði hún frá því hvernig Jón Bald­vin á­reitti hana kyn­ferðis­lega á heimili hans og eigin­konu hans í bænum Salobreña í Anda­lúsíu þann 16. júní 2018 að loknum leik Ís­lands og Argentínu í heims­meistara­mótinu í knatt­spyrnu.

Við aðal­með­ferð málsins fór Héraðs­sak­sóknari fram á tvo til þrjá mánuði í skil­orðs­bundnu fangelsi yfir Jóni Bald­vin Hannibals­syni, fyrr­verandi ráð­herra.

Jón Bald­vin hafnaði því al­farið að hafa kyn­ferðis­lega á­reitt Car­men, fram kom í vitnis­burði hans og Bryn­dísar að þarna hefði eitt­hvað ó­eðli­legt átt sér stað, til­gangur heim­sóknarinnar hafi verið að koma á hann höggi. Við aðal­með­ferð málsins í októ­ber síðast­liðnum velti Jón upp tveimur mögu­legum skýringum á hvers vegna matar­boðið ör­laga­ríka leystist upp. Annars vegar hafi það verið vegna ölvunar og hins vegar hafi hann verið leiddur í gildru.

Jón Bald­vin lýsti at­vikinu svona við aðal­með­ferðina:

„Allt í einu gerist það að Lauf­ey Ósk [móðir Car­men inn­sk. blaða­manns] sprettur upp og biður um yfir­lýsingu. Það er eitt­hvað á þá leið: Jón Bald­vin þú átt að biðja dóttur mína af­sökunar, þú káfaðir á henni, ég sá það […] Kom eins og þruma úr heið­skíru lofti, ég skyldi ekki hvað var á seyði. Car­men hafði farið bak við mig og sest í sætið sitt en um leið og Lauf­ey segir þetta sprettur hún upp og lætur sig hverfa. Hún segir: „Mamma ég get talað fyrir mig sjálf, og fer af vett­vangi, hún var skamma stund þarna.“

Car­men sagði aftur á móti við aðal­með­ferðina að henni hefði liðið ömur­lega í marga mánuði eftir matar­boðið. Hún lýsti upp­lifun sinni á þann veg að um það bil tuttugu mínútum eftir að þau byrjuðu að borða hafi hún staðið upp til að sækja meira vín sem var geymt upp við vegg.

„Ég sæki vínið, Jón Bald­vin er þá vinstra megin við mig, ég fer hinum megin við hann að skenkja glösin, þá byrjar hann að strjúka á mér rassinn mjög ákaft,“ sagði hún og bætti við að henni hafi brugðið mjög og farið í al­gjört sjokk.