Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi fjármálaráðherra og utanríkisráðherra, hlaut í dag tveggja mánaða skilorðsbundin dóm í Landsrétti. Hann var sakfelldur fyrir kynferðislega áreitni gegn Carmen Jóhannsdóttur sem átti sér stað á Spáni árið 2018.

Hann hafði áður verið sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í þessu sama máli, en Landsréttur sneri dómnum við. Vísir greindi fyrst frá þessu.

Jón Baldvin var ákærður árið 2019 og var gefið að sök að hafa strokið Carmen um rassinn í matarboði á Spáni.

Fyrrverandi ráðherrann hefur neitað sök í málinu og meðal annars talað um það að Carmen og móðir hennar hafi sett atvikið á svið til þess eins að saka hann um kynferðisofbeldi.

Bjóst ekki við þessu

Í samtali við Fréttablaðið segist Carmen vera mjög ánægð með niðurstöðuna. „Ég bjóst ekki við þessu. Ég viðurkenni það alveg, en ég er mjög ánægð.“

Carmen segir niðurstöðuna ekki bara vera sigur fyrir sig. „Heldur er þetta sigur fyrir hönd allra hinna, sem hafa orðið fyrir hans ofbeldi.“

Spurð út í refsinguna sem Jón Baldvin hlaut, tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi, segir Carmen aðalatriðið vera að hann hafi verið sakfelldur.

Í samtali við Vísi sagði verjandi Jón Baldvins að hann myndi sækja um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. „Ég hef enga stjórn á því,“ segir Carmen og bætir við „Hann gerir það þá bara.“

Uppfært

Dómur Landsréttar í málinu hefur nú verið birtur og má lesa hann hér. Í honum kemur fram að framburður Carmenar, og móður hennar sem var helsta vitni málsins, hafi verið staðfastar í framburði sínum um að Jón Baldvin hafi strokið henni upp og niður rassinn utanklæða. Önnur vitna sögðust ekki hafa séð það, en í dómnum kemur fram að það þurfi ekki að þýða að það hafi ekki gerst.

Þá liggur fyrir að Jón Baldvin og Carmen hafi ekki þekkst fyrir að hún varð gestur á heimili hans. Því verði að teljast ólíklegt að nokkuð bendi til þess að hún eða móðir hennar hafi „borið þungan hug til ákærða eða viljað honum illt.“

Dómnum þótti ákæruvaldið hafa sýnt fram á að framburður Carmenar og móður hennar væru trúverðugir og því væri sannað að Jón Baldvin hefði framið brotið sem honum var gefið að sök.