Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, sendiherra og formaður Alþýðuflokksins, segir að það hafi ekki hvarflað að honum með hvers konar bréfsefni hann hafi notað til að biðja um að nauðungarvista dóttur sína, Aldísi Schram.

Þetta kom fram í skýrslutöku í aðalmeðferð í máli hans gegn Aldísi og RÚV.

Óskaði eftir nauðungarvistun með símbréfi

Árið 1998 óskaði Jón Baldvin eftir að dóttir hans Aldís Schram yrði nauðungarvistuð með símbréfi frá sendiráðinu í Washington D.C. en þá var hann sendiherra Íslands.

Aðspurður um símbréfið sagði Jón að það gæti vel verið að það hafi brotið í bága við reglur. En hann hafi fengið neyðarkall og beiðni frá sjúkrastofnun um að bregðast við sem allra fyrst.

Beiðni Jóns Baldvins um nauðungarvistun dóttur sinnar.

„Þegar að neyðarkallið kemur er ég beðin um að bregðast við strax að veita þetta samþykki. Þá er það neyðarástand og þú grípur það sem hendi er næst. Við erum ekki þarna á tölvuöld, þetta voru faxvélar, það var ekkert annað bréfsefni á staðnum,“ sagði hann og bætti við að hann væri ekki að velta fyrir sér hver bréfhausinn væri. Hann væri að velta fyrir sér hvernig hann gæti brugðist við strax til þess að dóttir hans kæmist sem allra fyrst undir læknishendur.

„Nauðsyn brýtur lög. Það hvarflaði ekki að mér sú hugsun að skipta mér af því hvað stóð á bréfhausi blaðsins, það var ekkert annað á staðnum.“

„Þegar að neyðarkallið kemur er ég beðin um að bregðast við strax að veita þetta samþykki. Þá er það neyðarástand og þú grípur það sem hendi er næst.“

Sama gildi um bréf sem hann sendi frá hóteli í Minnesota þar sem á faxinu var nafn hótelsins. Aðspurður hvers vegna lögreglan hafi skráð beiðni sem aðstoð við erlend sendiráð segist hann ekki getað svarað fyrir lögregluna eða aðrar stofnanir.

„Ég hef aldrei sigað lögreglu á dóttur mína enda hef ég ekki vald til þess,“ sagði hann.

„Ég bað ekki um aðstoð við erlend sendiráð. Trúir einhver því að sendiherra sé valdspersóna? Sendiherra er þjónn sem gætir hagsmuna Íslands á erlendum vettvangi. Hefði þessi bréfshaus ekki verið hefði fólk þá ekki vitað að ég væri sendiherra? Stundum hef ég verið kallaður alræmdur. Allir vissu að ég væri sendiherra. Þetta er aukaatriði,“ sagði Jón.

Aldís Scram og Sigmar Guðmundsson, dagskrárgerðarmaður, munu einnig gefa skýrslu við aðalmeðferðina í dag. Þá hafa fimm vitni einnig verið kölluð til skýrslutöku.

Útvarpsviðtal orsök málaferlanna

Aðdragandi þessara málaferla eru að 17. janúar 2019, tók Sigmar Guðmundsson viðtal við Aldísi, í Morgunútvarpi Rásar 2. Um viðtalið segir meðal annars í stefnu Jóns Baldvins: „Í viðtalinu sakaði stefnda Aldís stefnanda um margskonar hegningarlagabrot s.s. sifjaspell, kynferðisbrot gegn börnum, barnaníð, ólögmæta nauðungarvistun á geðdeild, frelsissviptingu og ýmsa aðra refsiverða og siðferðislega ámælisverða háttsemi.“

Viðtalið hafi jafnframt innihaldið innslög frá Sigmari sem hafi viðhaft svipuð ummæli um Jón og miðlað þeim til hlustenda. Þar sem hvorki Rúv né Aldís hafi svarað kröfum Jóns Baldvins um möguleg málalok utan réttar hafi honum verið nauðugur sá kostur að höfða dómsmál til að verja æru sína.

Aldís situr nú í vitnastúku og gefur skýrslu. Auk hennar og Sigmars Guðmundssonar sem einnig er stefnt í málinu, munu fimm vitni gefa skýrslu í dag.