Meiðyrðamál Jóns Bald­vins Hannibals­sonar gegn Al­dísi Schram, Sig­mari Guð­munds­syni og RÚV var tekið fyrir í Héraðs­dómi Reykja­víkur í dag.

Líkt og fram hefur komið krefst Jón Bald­vin þess að fjór­tán um­mæli verði dæmd dauð og ó­merk, tíu hjá Al­dísi og fern hjá Sig­mari en til vara hjá Al­dísi. Um­mælin voru látin falla í Morgunút­varpinu á Rás 2 þann 17. janúar á síðasta ári.

Við það til­efni vakti mikla at­hygli þegar Al­dís greindi í löngu máli, meðal annars á Face­book, frá reynslu sinni af vist sinni á heimili Jóns og eigin­konu hans, Bryn­dísi Schram. Jón Bald­vin mætti sjálfur í Silfrið, þar sem hann hafnaði á­sökunum Al­dísar.

Þá er jafn­framt gerð krafa um birtingu af­sökunar­beiðni, sem RÚV hefur hafnað. Ekki náðist í Vil­hjálm Vil­hjálms­son, lög­mann Jóns en Gunnar Ingi Jóhanns­son, lög­maður Al­dísar, sagði í sam­tali við Frétta­blaðið í gær að engar sátta­um­leitanir hafi átt sér stað.

Gerð sé fjár­krafa á Sig­mar en ekki á Al­dísi. Jón Bald­vin hefur ekki viljað tjá sig um málið í sam­tali við Frétta­blaðið.