Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi sendiherra og ráðherra, krefst þess að ákæru gegn honum um kynferðislega áreitni verði vísað frá dómi. Þetta kom fram við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Krafan byggir á því að íslenskir dómstólar hafi ekki lögsögu í málinu, þar sem meint atvik áttu sér stað á Spáni.

Hvorki hann né Carmen Jóhannsdóttir, brotaþoli í málinu, voru viðstödd þingfestinguna og vísaði verjandi Jóns Baldvins til persónulegra aðstæðna um fjarveru hans.

Málsaðilar gera ekki kröfu um að þinghald verði lokað og ákvað dómari að hafa það opið.

Aldís Schram, dóttir Jóns Baldvins, var viðstödd þinghald.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Jón Baldvin greindi sjálfur frá ákærunni í pistli í Morgunblaðinu í síðustu viku. Málið varðar meinta kynferðislega áreitni sem átti að hafa átt sér stað á Spáni árið 2018.

Carmen greindi fyrst frá atvikinu í viðtali við Stundina. Þar sagði hún frá því hvernig Jón Baldvin áreitti hana kynferðislega á heimili hans og eiginkonu hans í bænum Salobreña í Andalúsíu þann 16. júní 2018 að lokum leik Íslands og Argentínu í heimsmeistaramótinu í knattspyrnu.

Car­men kærði Jón Bald­vin til lögreglu í mars í fyrra og hefur málið verið til rannsóknar í rúmlega ár að því er fram kemur í grein Jóns. Þar vitnar hann í kæruna, sem barst frá Önnu Barböru Andradóttur aðstoðarsaksóknara, þar sem hann er sakaður um að hafa strokið Carmen „utan klæða upp og niður eftir rassi“.

Móðir Carmenar er sögð hafa orðið vitni að þessu en Jón Baldvin segir vitnisburð hennar ótrúverðugan.

Málflutningur um frávísunakröfu Jóns Baldvins fer fram þann 30. október.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Jóns Baldvins, við þingfestingu í morgun.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari