Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, situr ekki á friðarstóli á áttræðisafmæli sínu sem hann fagnar í dag í skugga fjölda ásakana um kynferðislegt áreiti og ósæmilega hegðun í garð kvenna um áratuga skeið. Hann kemur við sögu í tveimur aðsendum greinum í Morgunblaðinu í dag. Aðra þeirra skrifar hann sjálfur og lýsir yfir að hann hafi „kært slúðurbera í fjölmiðlum fyrir tilhæfulausar sakargiftir, ranghermi og gróf meiðyrði.“

Sjá einnig: Segir Aldísi hafa samið handrit að ásökunum 2006

Á öðrum stað í blaðinu stígur síðan fram stuðmaðurinn og pólitískur skoðanabróðir Jóns Baldvins, Jakob Frímann Magnússon, og mærir á 80 ára afmælisdeginum sinn gamla vin og samferðarmann um langa hríð.

„Fáa menn veit ég jafn leiftrandi greinda, litríka og skemmtilega,“ segir Jakob um Jón Baldvin og heldur áfram. „Sannarlega öngvan er lagt hefur jafngjörva hönd á að skapa forsendur hins auðuga íslenska velferðarsamfélags sem aldrei hefur staðið í jafnmikum blóma og einmitt nú,“ skrifar Jakob og þakar velsældina „ötulli og einbeittri baráttu“ Jóns Baldvins fyrir þeim kostakjörum sem inngangan í EES, Evrópska efnahagssvæðið, færði okkur um miðjan tíunda áratug síðustu aldar.“

Enginn FriðJón

Þá lætur Jakob þess getið að Jóns Baldvins verði minnst hlýlega í öðrum löndum sem „hins djarfhuga stjórnmálamanns er fyrstur steig fram til at­ylg­is baltnesku þjóðunum í tvísýnni baráttu þeirra fyrir frelsi og langþráðu, endurheimtu sjálfstæði.“ Þar hafi Jón Baldvin hvergi hvikað undan „ógnandi hótunum Rússa“ og „bauð hinni vígreifu gömlu kommúnistaþjóð birginn án þess að blikna.“

Jakob skautar fram hjá umræðunni um þær ásakanir sem Jón Baldvin situr nú undir en lætur þess þó getið að ósjaldan hafi „gustað um Jón Baldvin Hannibalsson og sennilega aldrei sem nú. Í eðli sínu er Jón þó friðarins maður. Enginn þó FriðJón,“ gantast stuðmaðurinn og óskar „afmælisbarninu – og fjölskyldu þess allri – friðar og velfarnaðar á merkum tímamótum.“