Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, eru áfram í hópi þeirra vísindamanna sem mest áhrif hafa innan síns fræðasviðs, samkvæmt nýjum lista hins virta greiningarfyrirtækis Clarivate Analytics. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

Listinn sem um ræðir nefnist Highly Cited Researchers og hefur verið birtur frá árinu 2014. Samkvæmt tilkynningu háskólans tekur listinn til eins prósents vísindamanna innan hverrar fræðigreinar sem mest er vitnað til í greinum sem birtast í alþjóðlegum vísindatímaritum og byggist á gögnum úr gagnabankanum Web of Science. Í ár er tekið mið af tilvitnunum á árabilinu 2009-2019.

Jón Atli er prófessor í Rafmagns- og tölvuverkfræðideild og hefur verið rektor frá árinu 2015.

Kári stofnaði Íslenska erfðagreiningu fyrir rúmum tveimur áratugum og hefur leitt fyrirtækið í fremstu röð í rannsóknum á tengslum erfða og sjúkdóma. Hann varð prófessor við HÍ árið 2008.