Um níu hundruð börn hér á landi fá jólagjafir frá góðhjörtuðum landsmönnum á vegum Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur.

Nína Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur segir síðustu matar- og gjafarúthlutunum ljúka í dag þrátt fyrir að þeim hafi formlega lokið 16. desember síðastliðinn.

„Við vorum að úthluta til 16. desember fyrir þá sem sóttu um hjá okkur. En svo eru alltaf einhverjir sem gleyma og það getur ýmislegt komið upp á svona á síðustu stundu og við höfum svona verið að reyna bjarga því,“ segir Nína og bætir við að reynt sé að koma til móts við alla sem hafa samband.

Aðspurð segir Nína tilfinninguna vera að fleiri hafi þurft á aðstoð að halda í ár en á síðasta ári. Hún telur sennilegt að um tvö þúsund fjölskyldur hafi sótt aðstoð til Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur í ár miðað við um sextán hundruð manns í fyrra.

Nína segir hljóðið í fólki sem sækir aðstoð ekki gott. Róðurinn hjá fólki sé alltaf að þyngjast, útgjöld líkt og húsaleiga og matarinnkaup séu orðin mun hærri en áður.

Að sögn Nínu er hópurinn sem leitar aðstoðar mjög blandaður og nú fyrir jólin hafi flestar fjölskyldur sótt matarúthlutun og jólagjafir fyrir börnin sín.

„Ég held að þetta hafi verið um níu hundruð börn,“ segir hún.

Í fyrsta skipti ár tók Mæðrastyrksnefnd á móti umsóknum fólks á netinu og segir Nína marga hafa nýtt sér það.

„Það er alltaf einhver hluti sem er ekki tölvuvæddur, svo þau hringdu eða komu. En það hefur kannski verið auðveldara fyrir fólk að þurfa ekki að gera sér ferð einvörðungu til að sækja um og svo fékk það bara tíma og dagsetningu á þeim tíma sem það mátti koma.“

Þrátt fyrir að úthlutunum sé lokið það sem af er ári er skrifstofa og sími Mæðrastyrksnefndar alltaf opinn og segir Nína matarúthlutanir hefjast að nýju um miðjan janúar með hefðbundnum hætti líkt og áður.