Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarsetursins, segir að spá setursins um fimm milljarða króna aukningu í jólaverslun milli ára sé aðallega byggð á verðlagshækkunum og neysluhegðun einstaklinga á árinu. Mikill kraftur var í einkaneyslu á fyrri hluta ársins en dregið hefur úr á seinni hluta vegna hærra verðlags.
Gert er ráð fyrir að smásöluvelta í nóvember og desember verði 123,7 milljarðar króna fyrir utan virðisaukaskatt. Jafngildir þetta að verslun vegna jólahalds verði 73.535 krónur á mann að meðaltali. Eða tæplega 295 þúsund krónur fyrir fjögurra manna vísitölufjölskyldu. Af meðaltalinu fara 28.844 krónur í dagvöru, svo sem matvæli, en 44.690 krónur í sérvöru, eins og jólagjafir.
Á síðasta ári fór verslunin nokkuð fram úr spá Rannsóknarsetursins. Spáin hljóðaði upp á tæplega 4 prósenta aukningu en raunin varð rúmlega 7. Sigrún segir að spáin hafi verið nokkuð hógvær í fyrra og að áhrif faraldursins hafi verið vanmetin. Það er að faraldurinn, sem olli aukningu í veltu, hafi verið langlífari en búist var við.
Rannsóknarsetrið sér skýr merki um að jólaveltan sé að dreifast. Það er að nóvember og desember séu jafnari en áður. „Síðustu tvö ár virðist jólaverslunin hafa færst að einhverju leyti framar, yfir á nóvembermánuð,“ segir Sigrún.
Líklegasta ástæðan séu stóru afsláttardagarnir, sem kenndir eru við Black Friday og Cyber Monday, og áherslu á netverslun. „Það er mjög merkilegt að sjá hvernig afsláttardagarnir hafa haft áhrif á neysluhegðun,“ segir Sigrún.

Rannsóknarsetrið hefur mælt kortaveltugögn með daglegri tíðni undanfarin tvö ár. Seinna í desember mun liggja fyrir hversu stórir afsláttardagarnir voru á þessu ári.
Rannsóknasetur verslunarinnar hefur kveðið upp úr með það að jólagjöfin í ár er íslenskar bækur og spil.
Aflað var upplýsinga frá neytendum með netkönnun sem Prósent framkvæmdi. Spurt var tveggja spurninga, annars vegar hvaða vörur/þjónustu fólk væri til í að fá í jólagjöf þessi jól og hins vegar hvað það langaði helst að fá íjólagjöf í ár.
Rýnihópur á vegum Rannsóknasetursins hittist og ræddi rannsóknarspurninguna „Hver er jólagjöf ársins?“ og þegar nokkuð var liðið á umræðuna voru niðurstöður könnunar prósents og upplýsingar frá verslunum kynntar á fundinum.
Flestir neytendur, 55 prósent, völdu bækur og spil á sinn óskalista, auk þess sem 13 prósent vilja helst af öllu fá bækur eða spil í jólagjöf.
Hjá rýnihópnum kom fram að mikil áhersla væri á samveru og skemmtun og tíðarandinn kallar á aukinn léttleika eftir hörmungar undanfarinna ára. Þá mátti greina í umræðunum ákveðinn samhljóm um mikilvægi íslenska tungumálsins sem fellur vel að tíðarandanum en umræða um varðveislu þess hefur verið fyrirferðarmikil á árinu.
Lestur bóka er mikilvægt vopn í baráttu fyrir varðveislu íslenskunnar. Vísitala RSV um smásöluveltu sýnir að velta bókaútgefenda hefur aukist verulega frá síðasta ári og raunar árlega síðustu fjögur ár.