Börn og fjölskyldur þeirra gerðu sér ferð í Mývatnssveit til að hitta bræðurna þrettán en hið árlega jólabað Jólasveinanna í Dimmuborgum og fór fram í gær. Ótalmargir hlýddu á söng jólasveinanna í jarðböðunum við Mývatn eins og má sjá í myndbandinu hér að neðan.

Dimmuborgir í Mývatnssveit eru heimkynni jólasveinanna og hafa verið það frá örófi alda. Grýla og Leppalúði hafa frá upphafi búið í Lúdentaborgum og alið af sér 13 jólasveina. Þegar jólasveinarnir fóru að vaxa úr grasi fannst Grýlu og Leppalúða vera orðið heldur þröngt um sig og var strákana farið að langa að vera út af fyrir sig. Dimmuborgir var tilvalinn staður til að setjast að í.

Gestir að hlýða á söng jólasveinanna í jarðböðunum við Mývatn.
Mynd/Marcin Kozaczek

Jólasveinarnir hafa tekið upp þann sið að taka á móti börnum á öllum aldri á aðventunni í Dimmuborgum. Stundum er smá bras að sumri til að fá sveinana til að koma út úr hellunum sínum en þegar kólnar í lofti eru þeir fljótir að hlaupa út úr hellinum, gera snjóengla og fara í snjókast.

Fyrir flesta jólasveinana er jólabaðið hin mesta skemmtun og dýrmæt stund en nokkrir jólasveinar eru bara alls ekkert hrifnir af tilhugsuninni um jólabaðið og eru algjörlega á móti hugmyndinni að það þurfi eitthvað að baða sig. Þá láta þeir afskaplega illa og eiga það til að fela sig svo hinir jólasveinarnir geti ekki dregið þá í baðið.

Myndband: Marcin Kozaczek