Ár­leg pakka­söfnun Kringlunnar til styrktar Mæðra­styrks­nefnd er hafin og stendur yfir fram að jólum, bæði í verslunar­mið­stöðinni og vef­síðunni kringlan.is. Hjálp­söm börn eru í hlut­verki jóla­álfa sem skjótast inn í verslanir og kaupa pakka fyrir fram­lög sem berast í söfnunina.

,,Það hefur gengið hægar að safna pökkum út af sam­komu­tak­mörkunum og einnig hefur kaup­hegðun breyst mikið í þessu á­standi. Fleiri velja að versla á netinu til að forðast marg­menni og þess vegna var á­kveðið að bjóða upp á raf­ræna pakka­söfnun. Í sótt­varnar­skyni hefur heldur ekki verið hægt að bjóða upp á inn­pökkunar­borð eins og undan­farin ár. Við fengum því til liðs við okkur jóla­álfa sem munu skjótast í búðir og kaupa gjafir fyrir þau fram­lög sem fólk leggur til á kringlan.is," segir Bald­vina Snæ­laugs­dóttir, markaðs­stjóri Kringlunnar.

Hópur hjálp­samra barna á aldrinum 5 til 12 ára er í hlut­verki jóla­álfanna og vildu þau hjálpa til og bjarga jólunum fyrir þá sem minna mega sín.

,,Við teljum að fólk sé enn viljugt að gefa í söfnunina, það finnum við greini­lega. Fólk getur farið inn á vef­síðuna kringlan.is og valið upp­hæð á gjöf sem jóla­álfarnir sjá síðan um að kaupa, pakka inn og setja undir fal­lega jóla­tréð í göngu­götu Kringlunnar. Með gjöfinni er hægt að skilja eftir jóla­kveðju til barnsins," segir Bald­vina.

Mæðra­styrks­nefnd, Fjöl­skyldu­hjálp Ís­lands auk Hjálpar­stofnunar Kirkjunnar sjá um að út­hluta gjöfunum til fjöl­skyldna á Ís­landi sem þurfa að­stoð fyrir jólin. ,,Það er mikil neyð hjá þessum hjálpar­sam­tökum og neyðin aldrei meiri en nú um þessi jól. Ég vil hvetja alla til að kaupa eina auka­gjöf fyrir þessi jól og gleðja lítil hjörtu sem virki­lega þurfa á að halda, segir Bald­vina enn fremur. „Fólk nýti sér netið til að láta gott af sér leiða og leyfi ekki sam­komu­tak­mörkum að hamla mikil­vægu verk­efni.