Jökulhlaupið frá Grímsvötnum heldur áfram og gert er ráð fyrir að það nái hápunkti á sunnudag, segir Einar Bessi Gestsson náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Íshellan hefur nú sigið um rétt rúma 25 metra, þar af átta metra síðasta sólarhring.

Að sögn Einar er búist við því að rennslið verði um eða yfir 4000 rúmmetrar á sekúndu niður Gígjukvísl um helgina. Það muni ekki hafa áhrif á mannvirki líkt og brýr og vegi.

Einar segir ekkert gefa til kynna að gos sé í vændum enn sem komið er. Það sé þó fylgst mjög vel með skjálftavirkni á svæðinu við Grímsvötn og órói sé mældur.

Austurendi Skeiðarárjökuls þar sem hlaupvatn úr Grímsvötnum brýst fram undan jöklinum og leitar í farveg Gígjukvíslar.
Veðurstofan/Njáll Fannar Reynisson

Aðspurður hvað hlaupið geti varið lengi segir Einar erfitt að segja. Rennslið muni ná hámarki í Gígjukvísl á sunnudag eða um helgina.

Síðan muni það taka nokkra daga fyrir rennslið að jafna sig. Hlaupvatn verði eitthvað áfram í ánni.