Það fór ekki mikið fyrir frétt í febrúar frá argentínsku rann­sókna­mið­stöðinni Esperanza á Trinity skaga á vestan­verðu Suður­skauts­landi. Vísinda­menn þar sögðu hita­stig hafa náð nýjum hæðum á Suður­skautinu með 18,3 °C. Það hækkar fyrra met frá árinu 2015 um 0,8°C.

Það er ein­mitt á vestan­verðu Suður­skauti þar sem vísinda­menn óttast að ístapið sé mest. Fyrir um ári síðan var greint frá niður­stöðum banda­rískrar rann­sóknar á því hvernig jökull á Furu­eyjum hefði misst meira en þúsund milljarða í­s­tonna frá árinu 1979. Á sama tíma hefur Thwaites jökull sem er á stærð við Bret­land og er talinn sá við­kvæmasti á svæðinu tapað 634 milljörðum tonna af ís.

Ný hita­met eru í takt við að­varanir vísinda­manna. Jöklar og haf­ís bráðnar mun hraðar en á síðari hluta 20. aldar. Skýringin liggur í hnatt­rænni hlýnun af manna völdum.

Sex­falt hraðari bráðnun

Ís­lenskir vísinda­menn hafa bent á að bráðnun eða hopun jökla á Suður­skautinu geti haft mikil á­hrif á sjávar­stöðu við Ís­land. Breytingar á suður­hveli mun hafa meiri á­hrif á sjávar­stöðu við Ís­land en bráðnun Græn­lands­jökuls.

Á þetta var bent í um­fangs­mikilli skýrslu vísinda­nefndar um á­hrif lofts­lags­breytinga á Ís­landi sem kom út árið 2018. Á­ætlað er að á þessari öld verði hækkun sjávar­máls hér einungis þriðjungur þeirrar hækkunar sem talin er verða á heims­vísu. Skýringar er að leita í bráðnun mikils massa græn­lensku ís­hellunnar sem hækkar sjávar­stöðu í ná­grenni hans, meðal annars við Ís­land. Þegar jöklar þynnast minnkar þrýstingur á jarð­skorpuna og landið rís. Bráðni ís við Græn­land eru því líkur á að sjávar­yfir­borð hækki meira sunnar á hnettinum en hér.

Þessu er öfugt farið um bráðnun Suður­skauts­jökla og því verða á­hrifin á sjávar­stöðu meiri hér en ná­lægt suður­hveli.

Hraðara hop haf­íss og jökla

Sí­fellt koma fram nýjar vís­bendingar um að heim­skauta­jöklarnir hopi hraðar en áður hefur verið talið. Gögn gervi­hnatta um bráðnun jökla við Græn­land og Suður­skauts­land benda til þess að meira en sex þúsund milljarðar tonna af ís hafi bráðnað á árunum 1979 til 2018.
Á tíunda ára­tug síðustu aldar var ístap beggja hvela um 81 milljarðar tonna af ís á hverju ári, saman­borið við 475 milljarða tonna af ís á árinu 2010. Það er sex­föld aukning.

Þetta er niður­staða greinar í vísinda­tíma­ritinu Nature nú í mars. Að baki rann­sókninni standa 89 vísinda­menn frá 50 al­þjóð­legum stofnunum, studdir af geim­ferða­stofnunum Banda­ríkjanna (NASA) og Evrópu (ESA). Gögn 11 gervi­hnatta voru nýtt til að greina jökla og haf­ís.

Sama þróun er víða um heim. Oddur Sigurðs­son jökla­fræðingur á Veður­stofu Ís­lands telur að frá alda­mótum hafi nokkrir tugir ís­lenskra jökla horfið í þeim skilningi að þeir hafa rýrnað og breyst, þannig að einn jökull breytist í tvo eða fleiri minni jökla. Nú er gert ráð fyrir því að árið 2190 verði allir jöklar á Ís­landi horfnir að heita megi.

Or­sökin skýr: Kol­efna­út­blástur af manna völdum

Vísinda­menn sem standa að þessum al­þjóð­legu jökla­at­hugunum eru allir á einu máli um að or­saka hnatt­rænnar hlýnunar sé að leita í aukningu gróður­húsa­loft­tegunda af manna­völdum. Þar skiptir mestu aukning kol­tví­sýrings í and­rúms­loftinu, sem er nú meiri en verið hefur í milljónir ára.

Þessi um­hverfis­á­hrif af manna völdum bætast við náttúru­legar sveiflur og magna upp hlýnunina. Verði ekki dregið veru­lega úr kol­efna­út­blæstri er vá fyrir dyrum.

Hröð aukning gróður­húsa­loft­tegunda í and­rúms­loftinu gerir það að verkum að vist­kerfi breytast mun hraðar en þau hafa áður gert í jarð­sögunni. Ýmsar breytingar eru að verða merkjan­legar: Loft al­mennt heitara og rakara, hita­bylgjum fjölgar, víða má merkja veru­legar breytingar á magni úr­komu, sjór hlýnar og súrnar, ís­hellur og haf­ís minnkar.

Mörk hafíss á norðurslóðum í september 2019. Rauða línan sýnir hafísútbreiðslu í september á árunum 1981 til 2010.
NASA

Síðustu tíu ár eru þau hlýjustu í sögunni

Ný skýrsla Al­þjóða veður­fræði­stofnunarinnar (WMO) um stöðu lofts­lags­mála stað­festir þessa vá­legu þróun. Þar eru teknar saman upp­lýsingar frá veður­stofum víða um heim, vatna­mælingum, helstu sér­fræðingum og stofnunum.

Þar segir að síðustu fimm ár, 2015-2019, hafi verið þau hlýjustu í sögunni og frá byrjun níunda ára­tugarins hefur hver ára­tugur verið hlýrri en sá sem á undan kom.

Hita­met munu falla

Pet­teri Taa­las for­stjóri WMO segir allt benda til á­fram­haldandi öfga í veður­fari næstu ára­tugina. „Þar sem losun gróður­húsa­loft­tegunda heldur á­fram að aukast mun hita­stig á­fram hækka. Spá fyrir næsta ára­tug bendir til að lík­legt sé að met yfir heitustu ár falli á næstu fimm árum. Það er að­eins tíma­spurs­mál,“ segir hann.

Á síðasta ári var hita­stigið 1,1°C hærra en fyrir iðn­byltingu. António Guter­res aðal­ritari SÞ varar við: „Við erum fjarri því að vera á leiðinni að ná því tak­marki að hækkun hita­stigs verði innan við 1,5 gráður eða 2 gráður eins og stefnt var að Parísar­sam­komu­laginu,“ segir hann.

Ef fram heldur sem horfir í út­blæstri mann­kyns er hætt við að meðal­hiti eigi eftir að hækka um þrjú til fimm stig sé miðað við meðal­hita frá því mælingar hófust árið 1850.