„Ein helsta af­leiðing lofts­lags­breytinga er að ís­magn er að dragast saman. Vísinda­menn segja að sam­drátturinn í magni íss or­sakist af hlýnun jarðar og sam­svari nú meira en 1,2 trilljónum tonnum á ári.“ Þannig hefst inn­slag í banda­ríska morgun­þættinum CBS Mornings þar sem fjallað er um hopun jökla á Ís­landi.

Í ný­legri skýrslu Sam­einuðu þjóðanna segir að bráðnun íss sé helsta á­stæða hækkandi yfir­borðs sjávar sem skapar mikla hættu fyrir borgir og byggð við sjávar­síðuna á heims­vísu. Auk þess getur bráðnun íss haft á­hrif á haf­strauma og aukið tíðni ham­fara­veðurs.

Ben Tra­cy, frétta­ritari CBS Morning í lofts­lags­málum, sótti Ís­land heim og fjallaði um á­stand ís­lenskra jökla en þeir eru um tíu prósent af yfir­borði landsins. Hann segir út­lit fyrir að nánast allir jöklar landsins verði horfnir innan aldar.

Þar ræddi hann við jökla­fræðinginn Dr. M. Jack­son á Breiða­merkur­jökli. Í fréttinni sést hvernig jökullinn bráðnar hratt og segir Jack­son hann hopa um tæpa 140 metra á ári.

„Ef þú vilt sjá hvernig fram­tíðin verður, horfðu þá þangað,“ segir Jack­son og bendir á svæði sem áður var undir jökli en er nú auðnin ein. Hún hefur unnið að jökla­rann­sóknum á Ís­landi í um ára­tug.

„Til að komast upp á jökulinn þarf nú að ganga í um hálf­tíma yfir svæði sem áður var ísi lagt,“ segir Tra­cy.

Jökla­fræðingurinn Dr. M. Jack­son.
Mynd/Drmjackson.com

„Það eru um fjögur hundruð jöklar á þessari eyju. Meiri­hluti þeirra hopar nú á hraða sem ekki hefur áður þekkst í mann­kyns­sögunni. Eyjan er að tapa ísnum. Í hvert skipti sem ég kem aftur á jökulinn trúi ég ekki mínum eigin augum. Ég horfi á þá leysast upp, deyja, beint fyrir framan mig,“ segir jökla­fræðingurinn.

Þau Jack­son og Tra­cy könnuðu ís­helli þar sem bráðnandi ís fer um. Hún segir hellana verða sí­fellt stærri og stærri þar sem sí­fellt meira vatns­magn fer um þá. Þetta sé alla jafna eðli­legt en aldrei í þeim mæli sem nú er. Á­stæðan sé ein­föld, lofts­lags­breytingar af manna­völdum.

Jack­son og sam­starfs­fólk hennar hafa gert stutta heimildar­mynd, After Ice, þar sem þau skeyta saman gömlu mynd­efni og nýju sem tekið er með drónum til að sýna fram á hve mikið jöklar hafa hopað. Þau vonast til að myndin blási fólki von í brjóst um að hægt sé að grípa til að­gerða, von­leysi sé ekki það rétta í stöðunni.