Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, mun reyna að boða til þingkosninga fari svo að frumvarp sem kæmi í veg fyrir Brexit án samnings nær fram að ganga. Atkvæði verða greidd um frumvarpið síðar í dag en gert er ráð fyrir því að það verði samþykkt.

Johnson tapaði í gærkvöld atkvæðagreiðslu um hvort málið ætti að komast á dagskrá þingsins í dag. Alls greiddi 21 þingmaður Íhaldsflokksins atkvæði með stjórnarandstöðunni. Johnson brást við með því að reka þá úr þingflokknum.

Staðan í neðri deild breska þingsins er því þannig að stjórnarandstaðan telur 320 þingmenn en Íhaldsflokkurinn 298. Þar fyrir utan eru þingmennirnir sem reknir voru úr þingflokki Íhaldsflokksins.

Í fyrirspurnartíma í breska þinginu í dag skoraði Johnson á Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, að leyfa bresku þjóðinni að kjósa um stefnu hans. Vill hann að kosningar verði haldnar 15. október næstkomandi.

Johnson hefur ótrauður stefnt á útgöngu úr ESB þann 31. október næstkomandi hvort sem það yrði með eða án samnings. Á síðustu dögum hefur hann sagst vongóður um að nýir samningar tækjust við ESB fyrir þann tíma.

Til þess að boða til kosninga þarf Johnson stuðning tveggja þriðju hluta þingmanna. Verkamannaflokkurinn styður ekki kosningar án þess að frestun Brexit liggi fyrir en skoðanir eru skiptar meðal þingmanna um tímasetningu mögulegra kosninga.