Flokks­menn Boris John­son for­sætis­ráð­herra Bret­lands hvetja hann til að segja af sér eftir að hafa játað á sig sótt­varnar­brot seinasta sumar.

John­son sat undir svörum frá þing­mönnum í gær þar sem hann baðst af­sökunar á því að hafa farið í garð­veislu í Downing Street 10 á meðan strangar sam­komu­tak­markanir voru í gildi í landinu. Hann segist skilja reiði al­mennings vegna þessa.

Nokkrir hátt­settir þing­menn úr breska í­halds­flokknum, þar sem John­son er for­maður, hafa ráð­lagt honum að stíga til hliðar. Dominic Raab að­stoðar­for­sætis­ráð­herra hefur lýst yfir stuðningi við hann.

Dou­glas Ross, for­maður skoska í­halds­flokksins, hefur sent van­trausts­yfir­lýsingu á nefndina sem stýrir for­manns­vali í­halds­flokksins.

„Hann er for­sætis­ráð­herra, það er hans ríkis­stjórn sem á­kvað þessar reglur og hann þarf að vera dreginn til á­byrgðar fyrir þessa hegðun,“ segir Ross í sam­tali við BBC.

Zarah Sultana, þing­maður breska verka­manna­flokksins, er einnig meðal þeirra sem kalla eftir af­sögn Boris en hún skrifaði færslu á Twitter þar sem hún segir: „Boris John­son er að ljúga að þinginu. Hann er að ljúga að ykkur. Og hann er að mis­bjóða al­menning. Hann þarf að segja af sér."