Breska þingið sam­þykkti rétt í þessu breytingar­til­lögu á frum­varpi Boris John­son, for­sætis­ráð­herra Bret­lands, með 322 at­kvæðum gegn 306 en til­lagan kveður á um að John­son verði að sækja um frest vegna útgöngu úr sambandinu. Johnson hefur sjálfur sagt að hann muni ekki sækja um frest, enn sé stefnt að útgöngu 31. október.

Breska for­sætis­ráðu­neytið hefur í kjöl­farið á­kveðið að hætta við at­kvæða­greiðslu um út­göngu­samning John­son sem fara átti fram í dag. Breytingar­til­lagan kveður á um að for­sætis­ráð­herrann verði að sækja um frest á út­göngu landsins. Þingið verði að vera búið að samþykkja allar lagasetningar sem tengist samningnum áður en landið gangi úr sambandinu.

Að því er fram kemur á vef BBC segist Boris John­son ekki ætla að sækja um nýjan frest. Hann muni ráð­leggja leið­togum Evrópu­sam­bandsins að hafna öllum kröfum breska þingsins um frest og ætlar sér að koma Bretlandi úr Evrópusambandinu þann 31. október næstkomandi.

Segir hann að at­kvæða­greiðslan um breytingar­til­löguna hafi verið tæp og hann ætli sér enn að afla stuðnings þing­manna við út­göngu­samning sinn. Segir hann að ríkis­stjórnin muni kynna lög­gjöf vegna samningsins í næstu viku.

Jeremy Cor­byn, leið­togi Verka­manna­flokksins, hefur kallað eftir því að for­sætis­ráð­herrann „fari að lögum“ og sæki um frest vegna út­göngu. Þá fullyrti hann að almenningur yrði að eiga lokaorðið um Brexit.