Breska þingið samþykkti rétt í þessu breytingartillögu á frumvarpi Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, með 322 atkvæðum gegn 306 en tillagan kveður á um að Johnson verði að sækja um frest vegna útgöngu úr sambandinu. Johnson hefur sjálfur sagt að hann muni ekki sækja um frest, enn sé stefnt að útgöngu 31. október.
Breska forsætisráðuneytið hefur í kjölfarið ákveðið að hætta við atkvæðagreiðslu um útgöngusamning Johnson sem fara átti fram í dag. Breytingartillagan kveður á um að forsætisráðherrann verði að sækja um frest á útgöngu landsins. Þingið verði að vera búið að samþykkja allar lagasetningar sem tengist samningnum áður en landið gangi úr sambandinu.
Að því er fram kemur á vef BBC segist Boris Johnson ekki ætla að sækja um nýjan frest. Hann muni ráðleggja leiðtogum Evrópusambandsins að hafna öllum kröfum breska þingsins um frest og ætlar sér að koma Bretlandi úr Evrópusambandinu þann 31. október næstkomandi.
Segir hann að atkvæðagreiðslan um breytingartillöguna hafi verið tæp og hann ætli sér enn að afla stuðnings þingmanna við útgöngusamning sinn. Segir hann að ríkisstjórnin muni kynna löggjöf vegna samningsins í næstu viku.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur kallað eftir því að forsætisráðherrann „fari að lögum“ og sæki um frest vegna útgöngu. Þá fullyrti hann að almenningur yrði að eiga lokaorðið um Brexit.