Fjallgöngumaðurinn John Snorri Sigurjónsson og gönguhópur hans hef­ur að nýju ferðalag á K2 í dag. Þetta tilkynnir hann á Facebook í morgun, en hann var á leiðinni til Islamabad. John Snorri stefnir á að verða fyrsti maðurinn til að klífa tind fjallsins að vetrarlagi.

John var kominn í grunnbúðir fjallsins ásamt gönguhópi í fe­brú­ar síðastliðinn en tilraun þeirra var stöðvuð eftir að tveir leiðangursmenn treystu sér ekki til að halda áfram. „Að komast á topp K2 að vetri til er erfitt verk og er það nauðsynlegt að allir liðsmenn séu vel undirbúnir, bæði andlega og líkamlega, til þess að verða við áskoruninni,“ skrifaði John eftir að hætt var við ferðina í febrúar.

Í Facebook-færslunni segir hann að hann hafi fengið leyfi til að ganga á fjallið þann 17. ágúst, og að búnaður hans sé kominn í grunnbúðir fjallsins. Með í för verða tveir háfjallaburðarmenn, Muhammad Ali Sadpara sem sé þaulvanur og Sajid Ali sem sé yngsti maðurinn til að komast á K2 frá Pakistan.

Hann segir jafnframt að hann ynni með frábærum veðurfræðingi, Yannick Giezendanner, sem muni fylgjast með aðstæðum á fjallinu þegar hann hefur för sína.

K2 er næsthæsta fjall í heimi á eftir Everest fjalli. Það er á mörkum Pakistan og Kína í Karakoram-fjallgarðinum. John var árið 2017 fyrsti Íslendingurinn til að komast á topp fjallsins sem er 8.611 metra hátt og stundum nefnt Grimmafjall, en fjallið er talið eitt það mannskæðasta í heimi. Hann ætlar nú að vera sá fyrsti til að klífa tind fjallsins að vetrarlagi.

Finally this day has come. Today I start my journey for K2 winter expedition 20/21 that I organized my self with great...

Posted by John Snorri on Sunday, 22 November 2020