Bandaríski stórleikarinn John De Lancie, sem er þekktur fyrir leik sinn sem Q í Star Trek og Donald Margolis í Breaking Bad, er staddur hér á landi.

Leikarinn birti mynd á Twitter fyrir framan félagsheimilið Borg í Grímsnes- og Grafningshreppi í dag. Glöggir Star Trek aðdáendur fatta brandarann.

Hann er staddur hér á landi í boði Nexus og Siðmennt, félagi siðrænna húmanista. Hann mun mæta í spilasal Nexus í Glæsibæ á morgun þann 18. september og sitja fyrir svörum í léttu spjalli. Mun hann taka spurningar í sal og árita fyrir gesti. Einungis eru 100 númerið sæti í boði og er miðasala þegar hafin.

Einnig verður annar hittingur með leikaranum á Kex hosteli undir yfirskriftinni Efast á kránni þann 19. september. John er yfirlýstur húmanisti og efahyggjumaður og hefur komið fram á ýmsum samkomum og fyrirlestrum undanfarin ár til að ræða þessi málefni, sem eru honum afar hugleikin. Frítt er á viðburðinn.

Íslendingum gefst færi á að spjalla við John um allt milli himins og jarðar þetta kvöld.