John Bercow, þing­for­seti neðri deildar breska þingsins, til­kynnti í dag að hann hyggðist hætta sem þing­for­seti, í síðasta lagi hinn 31. októ­ber næst­komandi, þegar Bret­land á að ganga úr Evrópu­sam­bandinu. BBC greinir frá.

Bercow til­kynnti þetta í ræðu á þinginu og sagði að undan­farin tíu ár í stöðunni hefðu verið sann­kallaður heiður. Bercow var áður þing­maður Í­halds­flokksins og tók við stöðunni af Michael Martin árið 2009.

Í kjöl­far Brexit málsins svo­kallaða undan­farin þrjú ár hefur Bercow orðið fyrir æ há­værari gagn­rýnni, meðal annars frá stuðnings­mönnum Brexit sem segja hann hafa gefið þing­heimi full­frjálsar hendur í að tefja fyrir málinu.

Bercow hlaut hins­vegar dynjandi lófa­tak þing­heims þegar hann til­kynnti um á­kvörðun sína. Hvatti hann þing­heim til að kjósa nýjan for­seta eins fljótt og auðið er og ekki geyma það þar til eftir kosningar. Þingmenn hafa í dag og í gær rætt næstu vendingar í Brexit málinu svokallaða og stefnir enn í að þingi verði slitið í þessari viku.