Jóhannes Tryggvi Sveinbjörnsson var í dag dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað fjórum konum. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness nú eftir hádegi.

Þinghald í málinu var lokað.

Hann var ákærður fyrir að nauðga fjórum konum sem hann veitti líkamsmeðhöndlun vegna stoðkerfisvandamála á árunum milli 2007 til 2017. Rannsóknin hófst árið 2018, haustið það ár fjallaði Fréttablaðið um málið og ræddi við Sigrúnu Jóhannsdóttur lögmann og réttargæslumann nokkurra kvenna sem höfðu lagt fram kærur á hendur manninum. Alls kærðu á annan tug kvenna Jóhannes fyrir kynferðisbrot.

Lýsingar kvennanna voru flestar á þann veg að þær hefðu leitað til hans vegna stoðkerfisvandamála, við meðferðina hefði hann snert kynfæri þeirra og í flestum tilfellum farið með fingur inn í leggöng þeirra eða endaþarm.

Jóhannes kvaðst saklaus fyrir dómi en í umfjölluninni 2018 vísaði Steinbergur Finnbogason, verjandi hans, ásökunum á hendur skjólstæðingi sínum á bug. Hann hafi starfað við sérhæfða líkamsmeðhöndlun í einn og hálfan áratug og fengið yfir fimmtíu þúsund heimsóknir frá ánægðum viðskiptavinum á öllum aldri og af báðum kynjum.

Kom verjanda á óvart

Steinbergur Finnbogason, verjandi Jóhannesar.
Fréttablaðið/Anton Brink

Steinbergur sagði við DV í kjölfar dómsuppsögunnar að málinu hefði þegar verið áfrýjað. Niðurstaðan hefði komið sér á óvart.

Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, saksóknari hjá embætti Héraðssaksóknara, sagði að dómurinn væri býsna nálægt kröfum ákæruvaldsins.