Jóhanna Helga Jens­dóttir er önnur tveggja kvenna sem stigið hafa fram og greint frá of­beldi af hálfu Kol­beins Sig­þórs­sonar lands­liðs­manns í fót­bolta, sem átti sér stað á skemmti­staðnum B5 í Reykja­vík 15. septem­ber árið 2017.

Jóhanna á­kvað að stíga fram eftir að lands­liðs­maðurinn gaf frá sér yfir­lýsingu þar sem hann segist ekki kannast við að hafa beitt hana né Þór­hildi Gyðu Arnars­dóttur of­beldi af neinu tagi.

„Vegna yfir­lýsingar sem Kol­beinn Sig­þórs­son sendi frá sér til fjöl­miðla, þann 1. septem­ber síðast liðinn, sé ég mér ekki annað fært en að stíga fram og tjá mig um mál sem fram að þessu var lokið af minni hálfu,“ skrifar Jóhanna á Face­book síðu sína.

Hún segir Kol­bein hafi um­rætt kvöld veist að sér með þeim af­leiðingum að hún hlaust á­verka sem á á henni í nokkrar vikur á eftir. Þá hafði hann einnig veist að Þór­hildi Gyðu sama kvöld líkt og hefur komið í fjöl­miðlum undan­farna daga.

„Ég fór með málið í hefð­bundið ferli og lagði fram kæru hjá lög­reglu. Skömmu síðar fáum við Þór­hildur boð frá lög­manni um að skrifa undir þagnar­skyldu­samning. Það skyldi vera gegn greiðslu upp á 300.000 kr. Ég af­þakkaði þetta boð og málið hélt á­fram í hefð­bundnum far­vegi hjá lög­reglu. Skömmu síðar hafði annar lög­maður sam­band við mig til þess að reyna að leita sátta. Við tóku nokkrir fundir þar sem farið var yfir stöðu mála og á einum þeirra komu fram til­lögur að mögu­legum sáttum. Kol­beinn bauð okkur Þór­hildi, hvorri fyrir sig 1.500.000 kr. í sátta­greiðslu. Við sam­þykktum það með þeim fyrir­vara að hann myndi gangast við brotum sínum gegn okkur, aug­liti til aug­lits og biðja okkur af­sökunar á hegðun sinni og fram­ferði þetta kvöld. Þá settum við það sem skil­yrði hann myndi einnig gefa 3.000.000 kr til Stíga­móta, sem er eins og flestir vita ráð­gjafar- og fræðslu­mið­stöð sem berst gegn kyn­ferðis­of­beldi. Þótti okkur Þór­hildi það afar við­eig­andi í ljósi þess sem gerðist um­rætt kvöld,“ kemur fram í færslunni.

Þá segir Jóhanna að málið hafið verið lokað á þessum tíma­punkti fyrir henni og ætlaði sér aldrei að tala um það opin­ber­lega.

Eftir yfir­lýsingu Kol­beins í gær hafi verið nýr tónn yfir honum þar sem hann neitar fyrir brot sitt.

„Ef hann beitti engan of­beldi, hvers vegna bauð hann fram sátta­greiðslu og styrkti Stíga­mót sem beita sér gegn hvers konar kyn­bundnu of­beldi,“ skrifar Jóhanna. Hún segir það ekki sé rétt að Kol­beinn hafi greitt 3 milljónir til Stíga­móta að eigin frum­kvæði líkt og fram kemur í yfir­lýsingunni hans.

„Ég var sár og mér leið í rauninni eins og þessi af­sökunar­beiðni væri ekki lengur gild. Af því hann segir þarna að hann hafi ekki beitt okkur of­beldi. En ég verð að setja spurninga­merki við hvar línan er dregin þarna við að beita of­beldi. Þar sem ég var með á­verka eftir hann í ein­hverjar vikur og mér skilst að Þór­hildur hafi líka verið með á­verka,“ er haft eftir Jóhönnu í kvöld­fréttum Stöðvar 2.

Jóhanna segist ekki ætla að tjá sig meira um þetta mál þar sem því er lokað af hennar hálfu, en rétt skal vera rétt og að sann­leikurinn skuli að vera í fyrir­rúmi.

Ekki náðist í Kolbein Sigþórsson við vinnslu fréttarinnar.