Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, segist aldrei hafa hitt Andrew Bretaprins. Minnst var á forsætisráðherra Íslands í tölvupóstsamskiptum sem láku til erlendra fjölmiðla um spillingarmál hertogans af Jórvík í tengslum við íslenska banka.

Erlendir og íslenskir fjölmiðlar hafa fjallað um gagnalekann en tölvupóstsamskipti hertogans við Rowland-feðgana sýna fram á að hann hafi nýtt sér stöðu sína til að hjálpa Jonathan Rowland, hluthafa í Kaupþing í Lúxemborg.

Hertoginn á að hafa nálgast vinnuskjöl bresku ríkisstjórnarinnar um aðgerðir vegna Icesave deilnanna við Ísland. Hann sendi þau gögn á Jonathan Rowland og ráðlagði honum að bíða með að grípa til aðgerða þangað til eftir þjóðaratkvæðagreiðslu Íslendinga árið 2010.

Rowland-fjölskyldan kom síðar að starfsemi MP banka árið 2011, sem varð síðar að Kviku banka.

Afsökun til að nálgast Icesave skjöl

Í frétt Daily Mail er vitnað í tölvupóst þar sem kemur fram að forsætisráðherra Íslands hafi hitt Andrew Bretaprins árið 2010 í Davos í Sviss, mánuði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu Íslendinga um Icesave.

„Í grundvallaratriðum, þá hitti hertoginn af Jórvík forsætisráðherra Íslands í Davos og vill fá uppfærðar upplýsingar varðandi nýjustu stöðuna,“ segir í tölvupóstinum sem einkaritari hertogans sendi á einkaritara Alaister Darling, fjármálaráðherra Bretlands.

Fjármálaráðuneytið sendi í kjölfarið öll helstu gögn á einkaritara Andrew Bretaprins, og hertoginn sendi þau samdægurs á Jonathan Rowland en hann notaði fund sinn með „forsætisráðherra“ sem afsökun til að komast yfir gögnin.

Þá var Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra en hún segist aldrei hafa hitt hertogann.

„Ég hef aldrei hitt Andrew prins eða átt í einhverjum tölvupóst samskiptum við hann svo þetta er einhver misskilningur,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, í samtali við Fréttablaðið.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave fór fram 2010 en 93 prósent greiddra atkvæða voru á þann veg að lögin ættu að falla úr gildi.
Fréttablaðið/Valgarður Gíslason

Ólafur Ragnar var í Davos

Jóhanna segir að hugsanlega sé um að ræða misskilning. Hún hafi ekki verið viðstödd ársþing Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) í Davos í Sviss árið 2010.

Mikill fjöldi áhrifamanna af ýmsum sviðum víða að úr heiminum bókaði sig á ársþingið í Davos. Þar á meðal voru að minnsta kosti fimm Íslendingar. Ólafur Ragnar Grímsson, þá forseti Íslands, Jón Sigurðsson, forstjóri stoðtækjafyrirtækisins Össurar, Jón S. von Tetzchner, stofnandi og fyrrverandi forstjóri norska vafrafyrirtækisins Opera Software, Guðni Dagbjartsson, aðstoðarforstjóri fyrirtækjasamsteypunnar ABB í Sviss, og Björgólfur Thor Björgólfsson.

Rowland feðgar keyptu Kaupþing í Lúxemborg eftir hrun og eignuðust síðar MP banka sem varð síðar að Kviku banka.
Fréttablaðið/samsett mynd