Jóhann Valgeir Davíðsson, íþróttakennari á Eskifirði, hefur verið kosinn Austfirðingur ársins 2022 af lesendum Austurfréttar. Kjörið hlýtur Jóhann Valgeir fyrir elju sína við að benda á vandamál í íþróttahúsi staðarins.
Hann hefur reglulega undanfarin ár vakið athygli á ástandi hússins sem hefur lekið eftir stórrigningar. Í haust tók steininn úr enda voru myndirnar, sem Jóhann Valgeir deildi í hóp Eskfirðinga á Facebook, ekki geðslegar þar sem vatn vall út úr blöðrum á veggjum.
Í framhaldinu komu upp áhyggjur af myglu og áhrifum hennar á fólk í húsinu, þar á meðal skólabarna. Í byrjun mánaðarins var mygla staðfest. Húsið var tekið úr notkun fyrir áramót og eru smiðir byrjaðir að rífa frá til að hægt sé að ráðast í frekari rannsóknir og úrbætur.
„Það er mikill heiður að vera Austfirðingur ársins. Sá hópur sem áður hefur verið valinn er fjölbreyttur og sýnir hvað vakið hefur mesta athygli ár hvert. Kannski man fólk vel eftir þessu máli hér því það kemur upp í lok árs og var heitt í bæjarfélaginu,“ segir Jóhann Valgeir.