Áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum hefur nú tilkynnt að munnlegur málflutningur í lagastuldarmáli Jóhanns Helgasonar verði 16. nóvember.

Lögmaður Jóhanns og lögmenn tónlistarfyrirtækjanna sem hann stefndi munu þá hvorir um sig fá fimmtán mínútur frammi fyrir dómara til að rökstyðja málstað skjólstæðinga sinna. Fer það fram í Circuit 9-dómstólnum sem hefur sex ríki á vesturströnd Bandaríkjanna á starfssvæði sínu. Stefnt er vegna meints stuldar á laginu Söknuði með útgáfu á laginu You Raise Me Up sem norski tónlistarmaðurinn Rolf Lövland sendi frá sér.

Jóhann segir að sú vinna sem lögmaður hans, Michael Machat, hefur skilað fyrir áfrýjunardómstólnum hafi veitt honum aukna bjartsýni. „Ég er jákvæður í því tilliti að mér fannst greinargerðir Michaels vera sérlega sterkar, alveg afspyrnu góðar,“ segir hann.

Eins og fram hefur komið vísað dómari á fyrra stigi málssókn Jóhanns frá og byggðist það fyrst og fremst á því að hann taldi greiningu tónlistarfræðings sem starfaði fyrir Jóhann vera gallaða. Dómarinn hafnaði hins vegar 323 þúsund dollara (tæplega 49 milljóna króna) málskostnaðarkröfu andstæðinga Jóhanns.

Fyrir sitt leyti áfrýjaði Jóhann frávísuninni og tónlistarfyrirtækin áfrýjuðu ákvörðun dómarans um að íslenski tónlistarmaðurinn þyrfti ekki að greiða lögmannskostnað þeirra.

Bæði áfrýjunarmálin verða tekin fyrir við fyrrnefndan munnlegan málflutning í nóvember. Dómarar í málinu verða að minnsta kosti þrír en nöfn þeirra verða ekki upplýst fyrr en viku fyrir málflutninginn. Jóhann segir þetta mikilvægt því persóna dómarans geti vegið um 30 prósent í slíkum málum.

„Það getur skipt sköpum hvort við verðum heppnir eða óheppnir með dómara. Alveg burtséð frá gögnum málsins veit maður aldrei hvaða afstöðu dómarar taka. Þannig að við þurfum að vera heppnir til að fá málið fyrir kviðdóm,“ segir Jóhann.