Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur áhyggjur af stöðu veitingamanna í ljósi hertra sóttvarnarreglna sem taka munu gildi á miðnætti og gilda eiga til 2. febrúar næstkomandi.

Þá mega nú tíu manns koma saman en viðburðir með hraðprófum eru ekki lengur heimilir. Spilasölum og skemmtistöðum verður gert að loka en veitingastaðir mega taka við tuttugu gestum í rými til klukkan 21, allir gestir skulu hafa yfirgefið staðinn ekki seinna en klukkan 22.00.

„Aðgerðirnar sem nú er verið að boða fyrir veitingageirann lofa góðu. Frestun á gjalddaga staðgreiðslu getur skipt miklu upp á að bjarga fyrirtækjum fyrir horn núna í janúar, en það er samt bara frestun, svigrúm til að rúlla skuldum á undan sér, og tekur ekki á rót vandans sem er afkomuhöggið sem fyrirtæki hafa orðið fyrir undanfarna mánuði.

Til að taka á afkomuhögginu verða veittir sérstakir veitingastyrkir sem mér líst í fljótu bragði ágætlega á, en við þurfum auðvitað að skoða útfærsluna vel inni í þinginu og hvernig tryggja megi að styrkirnir nýtist best," segir Jóhann Páll í samtali við Fréttablaðið.

„Í fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins er talað um veitingastyrki til fyrirtæki sem hafa orðið fyrir a.m.k. 20% tekjufalli í desember 2021 og út mars 2022, en þá er auðvitað stóra spurningin: 20% tekjufall miðað við hvaða tímabil?

Auðvitað hlýtur líka sú spurning að vakna, þegar eftirspurn gufar upp og starfsemi dregst svona rækilega saman tímabundið í tilteknum atvinnugreinum, hvort það geti verið æskilegt að endurvekja hlutastarfaleiðina í einhverri mynd," segir þingmaðurinn enn fremur.

Jóhann Páll telur að skýra þurfa stöðuna gagnvart menningaratburðum og sviðslistum. Það er hvernig framangreindir eigi að starfa og aukinheldur hvernig koma eigi til móts við tekjutap fyrrgreindra atvinnugreina.

„Ég hef áhyggjur af menningargreinunum og sviðslistum; þarna er verið að fella brott heimildina til aukins fjölda með hraðprófum og það ríkir töluverð óvissa um það hvernig brugðist verði við þeim lamandi áhrifum sem faraldurinn og nauðsynlegar sóttvarnaráðstafanir hafa á alla starfsemi.

Það hafa ekki komið fram nein svör við því í dag hvernig brugðist verði við. Ríkisstjórnin verður að skýra þetta betur strax og bregðast við," segir Jóhann Páll.

„Annars er það alveg ljóst að Alþingi verður að taka sér stærra hlutverk þegar kemur að umræðu og ákvörðunum um sóttvarnaraðgerðir og viðbrögð við veirufaraldrinum. Nú eru að verða komin tvö ár síðan heimsfaraldurinn barst hingað til lands og við getum ekki haft það þannig til lengdar að löggjafinn sé í einhvers konar aukahlutverki þegar teknar eru ákvarðanir um íþyngjandi ráðstafanir sem snerta okkur öll.

Líklega hafa fáar atvinnugreinar orðið fyrir jafn miklum búsifjum og veitingageirinn, en þar hefur fjöldi fyrirtækja fallið milli skips og bryggju í mótvægisaðgerðum stjórnvalda. Þeim blæðir enn vegna heimsfaraldurs og hafta, og höfum í huga að þetta eru hátt í þúsund fyrirtæki með tíu þúsund starfsmenn," segir þingmaðurinn áhyggjufullur.

„Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í viðtali þann 10. desember að grípa þyrfti til sértækra aðgerða fyrir þennan geira og bregðast hratt við og ég veit að margir rekstraraðilar fengu hálfgert áfall þegar Alþingi skrapp svo bara í jólafrí án þess að kynntar hefðu verið eða samþykktar neinar útfærðar aðgerðir fyrir greinina, einmitt þegar framundan eru erfiðustu mánuðir ársins í veitingarekstri og fyrri stuðningsúrræði hafa verið að falla úr gildi.

Nú er verið að bæta úr þessu og það er vel. Í fjárlögum ársins 2022 er gert ráð fyrir fjárheimild upp á milljarð til stuðnings veitingageiranum. Til samanburðar kostar t.d. framlenging Allir vinna-átaksins sjö milljarða en stór hluti þess rennur inn í geira sem standa þokkalega og þar sem fjármálaráðuneytið er beinlínis að vara við þenslu.

Það eru ekki alveg allir að vinna… við þurfum að spyrja okkur hverjir það eru sem eru virkilega að vinna og í hvaða greinum fólk er einmitt að missa vinnuna. Hér þarf að forgangsraða fjármunum vel," segir hann um framhaldið.