„Mjög sterkar forsendur eru fyrir því að Hæstiréttur taki málið fyrir, en alltaf skal spyrja að leikslokum,“ segir Jóhann Helgason, sem snýr sér nú til Hæstaréttar Bandaríkjanna með lagastuldarmál sitt um Söknuð.

Áfrýjunardómstóll í Kaliforníu staðfesti í nóvember þá niðurstöðu fyrri dómstóls að vísa bæri máli Jóhanns frá dómi, þar sem í greinargerð tónlistarsérfræðings hans hefði ekki verið gerður nægjanlegur samanburður á lögunum Söknuði og You Raise Me Up við eldri lög sem komin væru í almannaeigu.

Bentu dómararnir þrír við áfrýjunardómstólinn á að þar sem dómstóllinn í Kalforníu starfaði eftir reglu sem útheimti slíkan samanburð gætu þeir ekki breytt þeirri niðurstöðu að vísa málinu frá. Hins vegar væru aðrir dómstólar í landinu sem beittu ekki þessari reglu og að það væri aðeins Hæstiréttur Bandaríkjanna sem gæti skorið úr um hvorri aðferðinni ætti að beita. Og þangað heldur Jóhann nú með mál sitt, sem snýst um að You Raise Me Up sé eftiröpun á Söknuði.

„Ef við höfum betur fyrir Hæstarétti fer málið aftur á borð hins upphaflega dómara, Andre Birotte Jr. og verður flutt fyrir framan kviðdóm,“ svarar Jóhann, um hvert framhald málsins gæti orðið eftir niðurstöðu Hæstaréttar.

Alls ekki er á vísan að róa með að Hæstiréttur taki mál Jóhanns fyrir. Aðeins ríflega eitt hundrað mál af þeim þúsundum sem berast á hverju ári ná því. Til að Hæstiréttur taki mál til skoðunar þarf það að uppfylla ákveðin skilyrði. Misræmi í dómaframkvæmd hjá dómstólum er á áhugasviði réttarins. En það mun einmitt eiga við í máli íslenska tónlistarmannsins, ekki síst í ljósi þess að dómararnir við áfrýjunardómstólinn hafi í raun vísað honum á Hæstarétt og að auki tiltekið í úrskurði sínum tvö nýleg dómsmál þar sem sitt hvorri aðferðinni var beitt.

Útgjöld halda áfram að hlaðast upp hjá Jóhanni. Í áranna rás hefur Jóhann fengið samtals nokkur hundruð þúsunda króna styrk frá STEFi auk þess sem samtökin féllust á það á árinu 2019 að greiða tónlistarmanninum samtals 4,9 milljónir króna fyrir fram í höfundarréttargjöld, sem hann fær vegna spilunar laga sinna á opinberum vettvangi. Vegna þessa fyrirkomulags fær Jóhann nú ekkert greitt frá STEFi næstu árin þar til sú skuld er greidd.

Covid hefur leikið Jóhann grátt fjárhagslega eins og marga aðra tónlistarmenn og leitar hann nú til STEFs um stuðning til að koma máli sínu fyrir hæstarétt. Búast má við að málið verði rætt á stjórnarfundi hjá STEFi í dag. „Öll aðstoð og stuðningur í þessu ferðalagi er mikils metinn,“ svarar Jóhann, spurður hvort hann sé bjartsýnn á aðstoð frá félögum sínum í STEFi.