Það má líkja þessu við fótboltaleik þar sem seinni hálfleikurinn er eftir,“ segir Jóhann Helgason tónlistar­maður sem nú er krafinn um greiðslu jafnvirðis 48 milljóna króna vegna lögfræðikostnaðar mótaðila sinna í lagastuldarmáli um Söknuð.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu í apríl varð dómari í Los Angeles við kröfu tónlistarfyrirtækjanna Universal, Warner og fleiri um að vísa máli Jóhanns frá. Nú krefjast fyrirtækin þess að fá lögmanns­kostnað sinn greiddan frá félaginu Johannsongs sem Jóhann stofnaði í Bandaríkjunum í aðdraganda málarekstursins. Deilt er um hvort lagið You Raise Me Up eftir Rolf Løvland sé stuldur á laginu Söknuði eftir Jóhann.

Farið er ófögrum orðum um Jóhann og málatilbúnað hans í rökstuðningi lögmanna tónlistarfyrirtækjanna fyrir því að hann borgi málskostnaðinn. Eru gjörðir hans sagðar stafa af illvilja gagnvart Løvland og að málið hafi verið höfðað gegn betri vitund. Jóhanni hafi verið fullkunnugt um að lögin Söknuður frá árinu 1977 og You Raise Me Up frá 2001 séu bæði byggð á írska þjóðlaginu Danny Boy og fleiri slíkum lögum. Norsku höfundarréttarsamtökin TONO hafi komist að þeirri niðurstöðu árið 2004 og „upplýst“ Jóhann um það.

„Hefðu hinir stefndu ekki barist af krafti gegn þessari málshöfðun hefði almenningur verið sviptur lagi sem hefur fært milljónum huggun og gleði,“ segja lögmenn tónlistarfyrirtækjanna. Stofa þeirra, Loeb & Loeb, hafi verið útnefnd sem sú besta í málum varðandi tónlistargeirann af fagvefnum US News og sé viður­kennd sem ein sú hæfasta er komi að höfundarréttarmálum. Því væru kröf­ur lögmannsstofunnar um tímagjald síst of háar.

Fyrir lögmennina þrjá er krafist tímakaups upp á 817 dollara, 675 dollara og 488 dollara. Sem er þá jafnvirði til 72 þúsund til 121 þúsund króna – á tímann. Alls er krafan um 322 þúsund dollarar, jafnvirði um 48 milljóna íslenskra króna.

Jóhann hafnar fullyrðingum um illvilja gagnvart Rolf Løvland og um að mál hans væri ekki byggt á traustum grunni. Hann hefur áður sagt að frávísun málsins verði áfrýjað.

„Þegar niðurstaða dómara misbýður heilbrigðri skynsemi og ekki er horft til staðreynda málsins þá þarf að grípa til að áfrýja,“ segir Jóhann Helgason.