„Ég er búin að vera með jógastöðina síðan 2005 og ég finn að það hefur verið rosalega góð breyting í samfélaginu. Fólk er undir miklu álagi. Það vill breyta um lífstíl, hægja á og hlúa betur að sér,“ segir Ingibjörg Stefansdóttir stofnandi Yoga Shala Reykjavík. Ingibjörg mun leiða fólk í jóga og dansveislu í Hörpu á morgun ásamt meðeiganda sínum Tómasi Oddi Eiríkssyni. Verður það hluti af núvitundarviðburði til styrktar Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Ingibjörg segir ákveðna vakningu eiga sér stað á Íslandi. Fólk sé farið að hugsa betur um sig sjálft þegar það finnur fyrir kulnun, streitu og stirðleika.

„Fólk er opnara fyrir því að gera eitthvað fyrir sig sjálft; Ekki bara að hlúa að líkamanum, heldur líka að sálinni,“ segir Ingibjörg. Hún segir skemmtilegt að sjá fólk á öllum aldri mæta í jógatíma.

„Það eru svo mikið af ungum karlmönnum að koma. Ungt fólk í dag, tvítugt til þrítugt, það er svo ótrúlega djúpt hugsandi og andlega þenkjandi. Það er svo skemmtilegt,“ segir Ingibjörg. Jógastöðin Yoga Shala Reykjavík stækkaði nýlega um helming eftir að stöðin fluttist í Skeifuna og bætti við sig heilli hæð.

Ingibjörg og Tómas sem hafa 10-20 ára reynslu í faginu hafa brennandi ástríðu fyrir því að hjálpa fólki að rækta sína hæfileika og blómstra sem mannverur.
Embla Karen

Hugleiðslan hið raunverulega jóga

„Jóga er miklu meira en bara líkamsrækt, það er fyrst og fremst heimspeki og lífsspeki kerfi þar sem hugleiðsla, sjálfskönnun og að lifa dyggðugu líferni er aðalmálið,“ segir Tómas Oddur í samtali við Fréttablaðið. Fyrirtækið er fyrsta jógastöðin á Íslandi til að notast á við innrautt hitakerfi (e. infrared heating) sem gefur hita en dregur ekki úr loftgæðum. Hitinn hefur reynst fólki með gigt og almennan stirðleika mjög vel. Tómas segir jóga hafa notið vaxandi vinsælda og reyni Yoga Shala að mæta þeirri eftirsókn.

„Nú erum við með opna tíma nánast allan daginn, frá morgni til kvölds“ segir Tómas. Hann segir eitthvað fyrir alla en áhersla sé lögð á að fólk hlusti á eigin líkama og virði mörk hans. Það geri allir bara það sem þeir geta.

„Æfingarnar eru aðeins undirbúningur fyrir hið raunverulega jóga sem er hugleiðslan,“ segir Tómas.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um tíma og jógakennaranám á vef Yoga Shala.