„Þetta var aðallega gler. Þetta hafa verið ansi margar ferðir,“ segir Sigurður Gíslason, eigandi veitingastaðarins Gott í Vestmannaeyjum. Lögreglan í Vestmannaeyjum birti á Facebook í dag færslu þar sem því er lýst að flöskuþjófur gangi laus í bænum.

Flöskurnar voru í eigu Gott og voru geymdar í porti á bak við veitingastaðinn. Ekki vildi betur til en svo að aðfararnótt sunnudags, á þjóðhátíð, var flöskunum stolið. Þjófnaðurinn bítur starfsmenn veitingastaðarins sárast því flöskupeningurinn rennur í starfsmannasjóðinn. „Í fyrra fóru þau til Ítalíu,“ segir Sigurður um starfsmennina og bætir við: „En það verður sennilega engin Ítalíuferð í ár,“ segir hann hlæjandi en bætir við að góð málefni séu stundum styrkt með flöskupeningum.

Jóhannes Ólafsson yfirlögregluþjónn heldur spilunum þétt að sér í samtali við Fréttablaðið. Hann segir þó að tjónið sé áætlað um 100 þúsund krónur. Aðspurður segir hann að í Vestmannaeyjum sé tekið við dósum á flöskum á einum stað. Flöskurnar muni því líklega enda þar. Hann útilokar þó ekki að þjófurinn hafi farið með góssið upp á land. „Við vitum ekkert um það. Við erum að skoða alla möguleika.“


Glerið var geymt í stórum pokum og í fiskikörum í porti við veitingastaðinn. Eins og áður segir var uppistaðan gler. Ef áætlað tjón, 100 þúsund krónur, er deilt með skilagjaldi einnar flösku er ljóst að um 6.250 einingar hefur verið að ræða. Tóm glerflaska vegur um 170 grömm. Varlega áætlað má þannig gera ráð fyrir að þjófurinn hafi borið á brott heilt tonn af glerflöskum.

Sigurður vill ekki gefa upp hvort hann gruni einhvern tiltekinn um þjófnaðinn en viðmælendur Fréttablaðsins voru orðvarir við vinnslu fréttarinnar. „Þetta hefur vonandi verið einhver sem hefur virkilega þurft á þessu að halda.“