Nýir jöfnunarþingmenn sem Fréttablaðið hefur náð tali af í dag sammælast um að þeir upplifi sig ekkert sérstaklega örugga í sínum þingsætum. Þingmennirnir duttu allir inn á þing í gær eftir að endurtalið var í Norðvesturkjördæmi.
Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær hafi endurtalningin áhrif á jöfnunarsæti í öllum kjördæmum. Duttu þingmenn ýmist út eða inn.
Samfylkingin tapaði Rósu Björk Brynjólfsdóttir úr Reykjavíkurkjördæmi suður en fær inn Jóhann Pál Jóhannsson í staðinn í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Píratar töpuðu Lenyu Rún Taha Karim í Reykjavíkurkjördæmi norður en fá inn Gísla Rafn Ólafsson í Suðvesturkjördæmi.
Hjá Viðreisn nær Guðbrandur Einarsson kjöri en Guðmundur Gunnarsson ekki. Hjá Miðflokknum kemur Bergþór Ólason inn á kostnað Karls Gauta Hjaltasonar og hjá Vinstri grænum kemur Orri Páll Jóhannsson inn í stað Hólmfríðar Árnadóttur.
Tilfinningakokteill
Guðbrandur Einarsson, nýr jöfnunarþingmaður Viðreisnar, segist aðspurður gera lítið annað en að fylgjast með gangi mála. Fjórir flokkar hafa beðið um endurtalningu í Suðurkjördæmi og líkur á að kapallinn fari af stað aftur og jöfnunarþingsætin breytist enn á ný.
„Nei ég geri það nú ekki,“ segir Guðbrandur aðspurður út í það hvort hann upplifi sig öruggan inni. „Ekki þegar maður heyrir að það eru óskir um endurtalningu,“ segir Guðbrandur.
„Þetta er búið að vera eins og allir segja mikill rússíbani og tilfinningakokteill,“ segir hann merkilega léttur í bragði. Hann bendir á að ef talið hefði verið rétt í Norðvesturkjördæmi hefði hann aldrei dottið út.
„En ég er ekki alveg búinn að skynja það að vera glaður yfir því að komast inn. Líka bara af því að það voru aðrir sem voru búnir að gleðjast yfir því að vera komnir inn en eru núna daprir yfir því að hafa verið hent út.“
Óvissan sé mikil og segist Guðbrandur hlakka til að fá endanlega niðurstöðu í málið, hvenær sem það verður. „En þetta er mjög vont fyrir alla aðila, þessi óvissa en það er bara landskjörstjórnar að úrskurða um málið og klára þetta. Þá geta bara allir haldið áfram, hvort sem þeir verða glaðir eða daprir, það þarf að komast endahnútur í málið.“
Vildi ekkert tjá sig um eigin líðan
Bergþór Ólason, nýr þingmaður Miðflokksins, vildi ekkert tjá sig um eigin líðan þegar Fréttablaðið hafði samband. Karl Gauti Hjaltason tilkynnti nú fyrir skemmstu að hann hyggðist kæra kosningarnar.
„Ég ætla ekkert að tjá mig fyrr en niðurstaðan kemur hvað frekari endurtalningar varðar,“ segir Bergþór. Aðspurður út í sína eigin líðan, óháð efnislegri skoðun á gangi mála vill hann ekkert segja.
„Ég ætla bara að hinkra með allar yfirlýsingar enn að sinni.“
Taugatrekkjandi staða
Jódís Skúladóttir, þriðji þingmaður Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi og jöfnunarþingmaður, segir að hún, eins og aðrir bíði spennt eftir því að vita hvort hún haldi þingsætinu sínu. Hún ólíkt öðrum viðmælendum Fréttablaðsins hefur haldist inni.
„Mér líður þokkalega vel eftir fyrsta góða nætursvefninn í nokkrar vikur. Ég er heima og er að hitta börnin, sem er næs, en þetta er auðvitað taugatrekkjandi staða. Ég var þingkona í gær og er þingkona í dag en þessi óvissa er óþægileg og maður er í lausu lofti. Ég ætla að vera bjartsýn og hafa trú á því að þetta haldi,“ segir Jódís.
Eftir að talið var í Norðvesturkjördæmi fór Orri Páll Jóhannsson, annar þingmaður VG í Reykjavík norður, inn fyrir Hólmfríði Árnadóttur, oddvita flokksins í Suðurkjördæmi.
Jódís segir að það sé snúið að missa oddvitann úr Suðurkjördæmi úr þingflokknum því það séu augljósir kostir við það að hafa þingmenn í öllum kjördæmum.
„Þess vegna er mikilvægt að skoða stöðuna þar líka, en auðvitað er þetta allt öndvegisfólk og við höldum þingmannafjöldanum,“ segir Jódís. Hún fundaði á Alþingi með þingflokknum í gær þar sem farið var yfir stöðuna.