Nýir jöfnunar­þing­menn sem Frétta­blaðið hefur náð tali af í dag sam­mælast um að þeir upp­lifi sig ekkert sér­stak­lega örugga í sínum þing­sætum. Þing­mennirnir duttu allir inn á þing í gær eftir að endur­talið var í Norð­vestur­kjör­dæmi.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá í gær hafi endur­talningin á­hrif á jöfnunar­sæti í öllum kjör­dæmum. Duttu þing­menn ýmist út eða inn.

Sam­fylkingin tapaði Rósu Björk Brynjólfs­dóttir úr Reykja­víkur­kjör­dæmi suður en fær inn Jóhann Pál Jóhanns­son í staðinn í Reykja­víkur­kjör­dæmi norður.
Píratar töpuðu Lenyu Rún Taha Ka­rim í Reykja­víkur­kjör­dæmi norður en fá inn Gísla Rafn Ólafs­son í Suð­vestur­kjör­dæmi.

Hjá Við­reisn nær Guð­brandur Einars­son kjöri en Guð­mundur Gunnars­son ekki. Hjá Mið­flokknum kemur Berg­þór Óla­son inn á kostnað Karls Gauta Hjalta­sonar og hjá Vinstri grænum kemur Orri Páll Jóhanns­son inn í stað Hólm­fríðar Árna­dóttur.

Til­finninga­kok­teill

Guð­brandur Einars­son, nýr jöfnunar­þing­maður Við­reisnar, segist að­spurður gera lítið annað en að fylgjast með gangi mála. Fjórir flokkar hafa beðið um endur­talningu í Suður­kjör­dæmi og líkur á að kapallinn fari af stað aftur og jöfnunar­þing­sætin breytist enn á ný.

„Nei ég geri það nú ekki,“ segir Guð­brandur að­spurður út í það hvort hann upp­lifi sig öruggan inni. „Ekki þegar maður heyrir að það eru óskir um endur­talningu,“ segir Guð­brandur.

„Þetta er búið að vera eins og allir segja mikill rússí­bani og til­finninga­kok­teill,“ segir hann merki­lega léttur í bragði. Hann bendir á að ef talið hefði verið rétt í Norð­vestur­kjör­dæmi hefði hann aldrei dottið út.

„En ég er ekki alveg búinn að skynja það að vera glaður yfir því að komast inn. Líka bara af því að það voru aðrir sem voru búnir að gleðjast yfir því að vera komnir inn en eru núna daprir yfir því að hafa verið hent út.“

Ó­vissan sé mikil og segist Guð­brandur hlakka til að fá endan­lega niður­stöðu í málið, hve­nær sem það verður. „En þetta er mjög vont fyrir alla aðila, þessi ó­vissa en það er bara lands­kjör­stjórnar að úr­skurða um málið og klára þetta. Þá geta bara allir haldið á­fram, hvort sem þeir verða glaðir eða daprir, það þarf að komast enda­hnútur í málið.“

Vildi ekkert tjá sig um eigin líðan

Berg­þór Óla­son, nýr þing­maður Mið­flokksins, vildi ekkert tjá sig um eigin líðan þegar Frétta­blaðið hafði sam­band. Karl Gauti Hjalta­son til­kynnti nú fyrir skemmstu að hann hyggðist kæra kosningarnar.

„Ég ætla ekkert að tjá mig fyrr en niður­staðan kemur hvað frekari endur­talningar varðar,“ segir Berg­þór. Að­spurður út í sína eigin líðan, óháð efnis­legri skoðun á gangi mála vill hann ekkert segja.

„Ég ætla bara að hinkra með allar yfir­lýsingar enn að sinni.“

Tauga­trekkjandi staða

Jó­dís Skúla­dóttir, þriðji þing­maður Vinstri grænna í Norð­austur­kjör­dæmi og jöfnunar­þing­maður, segir að hún, eins og aðrir bíði spennt eftir því að vita hvort hún haldi þing­sætinu sínu. Hún ó­líkt öðrum við­mælendum Frétta­blaðsins hefur haldist inni.

„Mér líður þokka­lega vel eftir fyrsta góða nætur­svefninn í nokkrar vikur. Ég er heima og er að hitta börnin, sem er næs, en þetta er auð­vitað tauga­trekkjandi staða. Ég var þing­kona í gær og er þing­kona í dag en þessi ó­vissa er ó­þægi­leg og maður er í lausu lofti. Ég ætla að vera bjart­sýn og hafa trú á því að þetta haldi,“ segir Jó­dís.

Eftir að talið var í Norð­vestur­kjör­dæmi fór Orri Páll Jóhanns­son, annar þing­maður VG í Reykja­vík norður, inn fyrir Hólm­fríði Árna­dóttur, odd­vita flokksins í Suður­kjör­dæmi.
Jó­dís segir að það sé snúið að missa odd­vitann úr Suður­kjör­dæmi úr þing­flokknum því það séu aug­ljósir kostir við það að hafa þing­menn í öllum kjör­dæmum.

„Þess vegna er mikil­vægt að skoða stöðuna þar líka, en auð­vitað er þetta allt önd­vegis­fólk og við höldum þing­manna­fjöldanum,“ segir Jó­dís. Hún fundaði á Al­þingi með þing­flokknum í gær þar sem farið var yfir stöðuna.