Joe Rogan hefur lofað að gera betur og bjóða upp á hófstilltari umræðu í hlaðvarpi sínu eftir að hafa verið harðlega gagnrýndur af tónlistarstjörnunum Neil Young og Joni Mitchell fyrir að dreifa misvísandi upplýsingum um Covid og bólusetningar.
Bæði Mitchell og Young báðu Spotify um að fjarlægja tónlist sína af streymisveitunni í mótmælaskyni við Joe Rogan. Spotify hefur síðan þá beðist afsökunar og lofað því að bæta viðvörun framan við hlaðvörp sem ræða Covid-19 héðan af.
Rogan baðst afsökunar á málinu í tæplega tíu mínútna löngu myndbandi sem hann birti á Instagram í morgun og lofaði að gera betur í hlaðvarpi sínu sem er það vinsælasta á Spotify.
Hann neitaði því þó að hafa vísvitandi dreift misvísandi upplýsingum og kvaðst ekki hafa gert neitt annað í hlaðvarpinu en ræða við fólk. Hann viðurkenndi þó að gera stundum glappaskot og sagðist styðja áætlun Spotify um að bæta fyrirvara framan við umdeilda þætti.
„Ég heiti ykkur því að ég mun gera mitt besta til að reyna að jafna út þessi umdeildu sjónarhorn við sjónarmið annarra þannig að kannski getum við fundið betri afstöðu saman,“ sagði Rogan og bætti því við að hann væri hvorki reiður út í Joni Mitchell né Neil Young.
„Ég er ekki reiður út í Neil Young, ég er mikill Neil Young aðdáandi,“ sagði hann og kvaðst líka vera hrifinn af tónlist Mitchell.
Rogan segist ætla að gera sitt besta til að kynna sér málefnin sem hann fjallar um í hlaðvarpi sínu og hafa allar staðreyndir á reiðum höndum áður en hann fjallar um málefni eins og bólusetningar. Þá sagðist hann ekki vera sammála því að hann ýtti undir „misvísandi upplýsingar“ í ljósi þess að nýjar upplýsingar væru sífellt að koma fram varðandi Covid-19.
„Ég vil þakka Spotify fyrir að vera svona hvetjandi á þessum tíma og mér þykir leitt að þau séu að lenda í þessu og séu að lenda undir svo mikilli pressu vegna þessa,“ sagði hann.
Sjá nánar í umfjöllun BBC um málið.