Joe Rogan hefur lofað að gera betur og bjóða upp á hóf­stilltari um­ræðu í hlað­varpi sínu eftir að hafa verið harð­lega gagn­rýndur af tón­listar­stjörnunum Neil Young og Joni Mitchell fyrir að dreifa mis­vísandi upp­lýsingum um Co­vid og bólu­setningar.

Bæði Mitchell og Young báðu Spoti­fy um að fjar­lægja tón­list sína af streymis­veitunni í mót­mæla­skyni við Joe Rogan. Spoti­fy hefur síðan þá beðist af­sökunar og lofað því að bæta við­vörun framan við hlað­vörp sem ræða Co­vid-19 héðan af.

Rogan baðst af­sökunar á málinu í tæp­lega tíu mínútna löngu mynd­bandi sem hann birti á Insta­gram í morgun og lofaði að gera betur í hlað­varpi sínu sem er það vin­sælasta á Spoti­fy.

Hann neitaði því þó að hafa vís­vitandi dreift mis­vísandi upp­lýsingum og kvaðst ekki hafa gert neitt annað í hlað­varpinu en ræða við fólk. Hann viður­kenndi þó að gera stundum glappa­skot og sagðist styðja á­ætlun Spoti­fy um að bæta fyrir­vara framan við um­deilda þætti.

„Ég heiti ykkur því að ég mun gera mitt besta til að reyna að jafna út þessi um­deildu sjónar­horn við sjónar­mið annarra þannig að kannski getum við fundið betri af­stöðu saman,“ sagði Rogan og bætti því við að hann væri hvorki reiður út í Joni Mitchell né Neil Young.

„Ég er ekki reiður út í Neil Young, ég er mikill Neil Young að­dáandi,“ sagði hann og kvaðst líka vera hrifinn af tón­list Mitchell.

Rogan segist ætla að gera sitt besta til að kynna sér mál­efnin sem hann fjallar um í hlað­varpi sínu og hafa allar stað­reyndir á reiðum höndum áður en hann fjallar um mál­efni eins og bólu­setningar. Þá sagðist hann ekki vera sam­mála því að hann ýtti undir „mis­vísandi upp­lýsingar“ í ljósi þess að nýjar upp­lýsingar væru sí­fellt að koma fram varðandi Co­vid-19.

„Ég vil þakka Spoti­fy fyrir að vera svona hvetjandi á þessum tíma og mér þykir leitt að þau séu að lenda í þessu og séu að lenda undir svo mikilli pressu vegna þessa,“ sagði hann.

Sjá nánar í um­fjöllun BBC um málið.