Joe Biden, væntan­legur fram­bjóðandi Demó­krata­flokksins í banda­rísku for­seta­kosningunum í haust, neitar því stað­fast­lega að hafa beitt konu kyn­ferðis­legu of­beldi sem starfaði á skrif­stofu hans á Banda­ríkja­þingi.

Biden gaf út yfir­lýsingu um þetta í dag en meint of­beldi átti sér stað fyrir 27 árum. „Þetta er ekki satt og þetta gerðist aldrei,“ sagði Biden sem var vara­for­seti Banda­ríkjanna í tíð Baracks Obama.

Tara Rea­de, fyrr­verandi sam­starfs­kona Bidens, steig fram í apríl­mánuði þar sem hún sakaði Biden um kyn­ferðis­legt of­beldi í kjallara þing­hússins á Capitol Hill árið 1993.

Áður en Biden gaf út yfir­lýsingu sína í morgun hafði fram­boð hans neitað á­sökununum stað­fast­lega. Biden hafði hins vegar ekki tjáð sig opin­ber­lega um málið fyrr en nú.

Í yfir­lýsingu sinni hvatti Biden til þess að öll mögu­leg gögn varðandi málið yrðu gerð opin­ber, þar með talin kvörtun sem Tara sagðist hafa lagt fram. Sagði Biden að slík gögn væru í Þjóð­skjala­safni Banda­ríkjanna ef þau væru til.

Í frétt Guar­dian kemur fram að Biden hafi verið undir vaxandi þrýstingi frá öðrum full­trúum Demó­krata­flokksins að tjá sig um málið. Tekið er fram að þeir standi við bakið á sínum manni og styðji hann í málinu. Þá kallaði Donald Trump Banda­ríkja­for­seti eftir því á blaða­manna­fundi við Hvíta húsið í gær að Biden tjáði sig um málið.

„Ég veit ekkert um þetta mál en mér finnst að hann ætti að tjá sig um það. Þetta gætu verið falskar á­sakanir. Ég veit allt um falskar á­sakanir,“ sagði Trump Banda­ríkja­for­seti.