Joe Biden, væntanlegur frambjóðandi Demókrataflokksins í bandarísku forsetakosningunum í haust, neitar því staðfastlega að hafa beitt konu kynferðislegu ofbeldi sem starfaði á skrifstofu hans á Bandaríkjaþingi.
Biden gaf út yfirlýsingu um þetta í dag en meint ofbeldi átti sér stað fyrir 27 árum. „Þetta er ekki satt og þetta gerðist aldrei,“ sagði Biden sem var varaforseti Bandaríkjanna í tíð Baracks Obama.
Tara Reade, fyrrverandi samstarfskona Bidens, steig fram í aprílmánuði þar sem hún sakaði Biden um kynferðislegt ofbeldi í kjallara þinghússins á Capitol Hill árið 1993.
Áður en Biden gaf út yfirlýsingu sína í morgun hafði framboð hans neitað ásökununum staðfastlega. Biden hafði hins vegar ekki tjáð sig opinberlega um málið fyrr en nú.
Í yfirlýsingu sinni hvatti Biden til þess að öll möguleg gögn varðandi málið yrðu gerð opinber, þar með talin kvörtun sem Tara sagðist hafa lagt fram. Sagði Biden að slík gögn væru í Þjóðskjalasafni Bandaríkjanna ef þau væru til.
Í frétt Guardian kemur fram að Biden hafi verið undir vaxandi þrýstingi frá öðrum fulltrúum Demókrataflokksins að tjá sig um málið. Tekið er fram að þeir standi við bakið á sínum manni og styðji hann í málinu. Þá kallaði Donald Trump Bandaríkjaforseti eftir því á blaðamannafundi við Hvíta húsið í gær að Biden tjáði sig um málið.
„Ég veit ekkert um þetta mál en mér finnst að hann ætti að tjá sig um það. Þetta gætu verið falskar ásakanir. Ég veit allt um falskar ásakanir,“ sagði Trump Bandaríkjaforseti.