Joe Biden er nú opinberlega orðinn 46. forseti Bandaríkjanna, en hann sór embættiseið sinn og var svarinn inn í embætti nú fyrir skemmstu. Kamala Harris er að sama skapi orðin fyrsta konan til að gegna embætti varaforseta.
Fréttablaðið hefur greint frá málum í allan dag í beinni lýsingu. Embættisathöfn Biden var stjörnum prýdd og söng Lady Gaga meðal annars þjóðsönginn og þá tók Jennifer Lopez einnig tvö lög.
Líkt og fram hefur komið lét Donald Trump, fyrrverandi forseti, ekki sjá sig á athöfninni. Braut hann þar með blað í sögu Bandaríkjanna en hefð hefur verið fyrir því að forverinn láti sjá sig við embættistöku eftirmanns síns. Trump er nú á leið til Flórída, ásamt eiginkonunni Melaniu Trump.
Mike Pence, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, mætti þó á athöfnina, á skjön við forseta sinn. Þá mættu einnig fyrrverandi forsetarnir Bill Clinton, George W. Bush og Barack Obama en Joe Biden og eiginkona hans, Dr. Jill Biden, heilsuðu Barack og Michelle Obama með virktum.
Hinn 96 ára gamli Jimmy Carter, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna árin 1976 til 1980 lét hinsvegar ekki sjá sig í fyrsta skiptið í rúm 40 ár. Hann hélt sig heima fyrir í Georgíu sökum aldurs.

Bað þjóðina um að hlusta á hvert annað
Biden lagði mikla áherslu á samstöðu í ræðu sinni eftir embættistöku. Hann sagðist trúa því að Bandaríkin væru betri heldur en nýir atburðir í höfuðborg landsins hefðu gefið út. „Ekki segja mér að hlutir geti ekki breyst,“ sagði Biden meðal annars um varaforsetann sinn, sem er fyrsta konan í því embætti.
„Til allra þeirra sem studdu mig ekki, vil ég segja þetta: Hlustið á mig. Mælið hjarta mitt og ef þið eruð enn ósammála mér, þá verður það þannig. Það er lýðræðið og það eru Bandaríkin,“ sagði nýi forsetinn. Hann sagði að ósætti mætti ekki leiða til sundrungar.
„Ég mun berjast jafn mikið fyrir þá sem studdu mig ekki og þá sem studdu mig,“ sagði forsetinn svo við lófatak viðstaddra. Hann sagði síðustu vikur hafa sýnt þjóðinni að lygar væru til og að sannleikurinn skipti máli.
Hann sagðist skilja ótta sumra Bandaríkjanna við framtíðina og áhyggjur af efnahagnum en lagði áherslu á að það mætti samt ekki verða til sundrungar. „Við getum þetta. Ef við opnum sálir okkar í stað þess að herða hjörtu okkar. Ef við sýnum skilning og umburðarlyndi og ef við erum til í að setja okkur í fótspor annarra, eins og mamma mín sagði, bara um stund.“
Hann sagði þjóðina nú verða að mæta heimsfaraldrinum sem ein heild. Og bað hann þjóðina um að biðja með sér í hljóði fyrir þá rúmlega 400 þúsund Bandaríkjamenn sem látið hafa lífið vegna faraldursins. Hann sagði Bandaríkin standa á krossgötum.
„Við stöndum frammi fyrir þeim öllum í einu. Nú reiðir á okkur. Munum við stíga upp? Þetta er tími hugrekkis, því það er verk að vinna. Og við verðum dæmd fyrir það hernig við munum leysa verkefni nútímans.“