Næstkomandi forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, brákaði á sér fótinn þegar hann var að leik við Mayor, annars German sheperd hunda sinna síðastliðinn laugardag. Læknir segir Biden hafa snúið sig á ökkla þegar hann hrasaði í leiknum.
78 ára demókratinn heimsótti bæklunarlækni í Newark, í Delaware, daginn eftir óhappið „til að gæta fyllstu varúðar.“ Eftir að hafa farið í tvær röntgenmyndatökur komu hárfínar sprungurnar í ljós. „Það er viðbúið að hann muni líklega þurfa spelku í nokkrar vikur,“ sagði Kevin O´Connor, einkalæknir Biden.
Biden fagnaði 78 ára afmæli sínu fyrr í mánuðinum og mun verða elsti forseti Bandaríkjanna þegar hann verður vígður í embættið þann 20.janúar á næsta ári. Vegna aldurs hans er talið að heilsa forsetans verði undir smásjá fylgjenda jafn sem andstæðinga hans.
Donald Trump, fráfarandi forseti Bandaríkjanna, fékk veður af slysinu á sunnudaginn og óskaði Biden góðs bata á Twitter. „Láttu þér batna fljótt!“ skrifaði Trump.
Get well soon! https://t.co/B0seiO84ld
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 30, 2020