Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna, setti færslu á Facebook í gær þar sem hún kallar eftir aðgerðum vegna SÁÁ. Hún segir að ekki sé hægt að horfa fram hjá því að hvert ömurlega málið hafi rekið annað árum saman innan samtakanna.

Færsla Jódísar kemur í kjölfar umfjöllunar Stundarinnar um samtökin og slaginn við Sjúkratryggingar Íslands sem og umfjöllun þeirra um vændiskaup Einars Hermannssonar, fyrrverandi formanns SÁÁ.

Jódís segir í færslunni að hún þekkir vel til starfsemi SÁÁ, sem skjólstæðingur, aðstandandi og starfsmaður til skamms tíma. Þá segir hún frá misnotkun sem hún varð fyrir í eftirmeðferð á Staðarfelli í Dölum sem er á vegum SÁÁ.

„Þegar ég mætti með rútunni í eftirmeðferð á Staðarfell í Dölum tók á móti mér maður sem var kanóna innan SÁÁ, sá sami hafði misnotað yfirburðaðstöðu sína gagnvart mér þrem árum fyrr. Ég hafði þá verið 17 ára, hann 30 ára. Hann, edrú, gaf mér áfengi, káfaði á mér og tróð tungunni upp í mig. Ég forðaði mér en hann mætti heim til mín um nóttina og vildi komast inn,“ segir Jódís meðal annars í færslu sinni.

Jódís heldur á fram og skrifar að þegar hún hafi hitt manninn þremur árum síðar í Dölunum hafi hann kallað hana afsíðis og spurt hvort þau væru ekki góð.

„Það kæmi sér illa fyrir okkur bæði að vera eitthvað að ræða þetta.“

Að sögn Jódísar er þetta hennar saga, hún hafi heyrt óteljandi aðrar og orðið vitni af enn öðrum. Hún segir yfirmannahrókeringar og hallarbyltingar innan SÁÁ ekki duga á meðan menningin innan samtakanna haldist óbreytt.

„Ég vil taka fram að innan SÁÁ starfar margt fólk sem flest er framúrskarandi í sínum störfum. Gagnrýni mín snýr ekki að því starfsfólki sem mætir til starfa af heillindum og sinnir sjúklingum af alúð á degi hverjum.

Það er bara tímabært að við sem samfélag horfumst í augu við að heilbrigðisþjónustu ætti ekki að reka af frjálsum félagasamtökum án þess að nokkurra spurninga sé spurt!“ segir Jódís í lok færslu sinnar.