„Þær stoppuðu í klukkutíma og gáfu sér góðan tíma í að skoða safnið og spjalla. Það var mikið heillaspor að fá að hitta hana, því ég hef alltaf verið mikill aðdáandi hennar,“ segir Sigríður Rósa Sigurðardóttir, safnstýra Smámunasafnsins í Eyjafirði, aðspurð út í heimsókn Jodie Foster og eiginkonu hennar, Alexandra Hedison, á safnið í vikunni.
Foster er stödd hér á landi við tökur á þáttaröðinni The Detective hjá HBO en tökur standa yfir í Dalvík þessa dagana. Leikkonan virðist nýta tækifærið til að skoða land og þjóð á milli þess að vera í tökum.
„Forsagan að þessu er að ég fæ símtal frá bílstjóranum hennar sem lætur mig vita að þeim langi að skoða safnið án þess þó að segja hver væri þarna á ferðinni. Safnið er ekki opið þessa dagana en það var eitthvað sem sagði mér að leyfa þeim að koma þótt að ég vissi ekki hver væri þarna á för,“ segir Sigríður.
Þar komu Jodie, Alexandra, bílstjóri þeirra og Högna sem hefur aðstoðað þær hér á landi en Sigríður var ekki lengi að átta sig á því hver væri þarna á ferðinni.
„Mér fannst ég kannast við báðar konurnar. Þegar ég var að kynna fyrir þeim safnið var ég alltaf að horfa á Jodie og þegar hún brosti fattaði ég hver þetta var,“ segir Sigríður glaðbeitt og heldur áfram:
„Mér datt ekki í hug að spyrja hvernig henni líkaði Ísland því ég var of upptekin að tala við þær um safnið.“
Hún segir að hópurinn hafi heillast af mununum sem finnast á safninu.
„Þær voru ofboðslega áhugasamar um safnið og fannst þetta alveg stórkostlegt. Þeim fannst synd að heyra að það væri óvissa um framtíðina og að það væri verið að selja húsnæðið því þær voru með ýmsar hugmyndir hvernig hægt væri að nýta alla þessa hluti. Þetta er náttúrulega einstakt safn á heimsvísu, það var maður sem safnaði fimmtíu þúsund munum á sjötíu ára tímabili,“ segir Sigríður sem hefur unnið lengi á safninu.
„Þær voru báðar á sama máli að þetta væri einstakt listasafn. Ég hef unnið hérna í sextán eða sautján ár og hef alltaf fengið erlenda ferðamenn sem eiga ekki orð yfir því hvað þetta er safn er einstakt og þær voru á sama máli.“