„Þær stoppuðu í klukku­tíma og gáfu sér góðan tíma í að skoða safnið og spjalla. Það var mikið heilla­spor að fá að hitta hana, því ég hef alltaf verið mikill að­dáandi hennar,“ segir Sig­ríður Rósa Sigurðar­dóttir, safn­stýra Smá­muna­safnsins í Eyja­firði, að­spurð út í heim­sókn Jodi­e Foster og eigin­konu hennar, Alexandra Hedi­son, á safnið í vikunni.

Foster er stödd hér á landi við tökur á þátta­röðinni The Detecti­ve hjá HBO en tökur standa yfir í Dal­vík þessa dagana. Leik­konan virðist nýta tæki­færið til að skoða land og þjóð á milli þess að vera í tökum.

„For­sagan að þessu er að ég fæ sím­tal frá bílstjóranum hennar sem lætur mig vita að þeim langi að skoða safnið án þess þó að segja hver væri þarna á ferðinni. Safnið er ekki opið þessa dagana en það var eitt­hvað sem sagði mér að leyfa þeim að koma þótt að ég vissi ekki hver væri þarna á för,“ segir Sig­ríður.

Þar komu Jodie, Alexandra, bílstjóri þeirra og Högna sem hefur aðstoðað þær hér á landi en Sigríður var ekki lengi að átta sig á því hver væri þarna á ferðinni.

„Mér fannst ég kannast við báðar konurnar. Þegar ég var að kynna fyrir þeim safnið var ég alltaf að horfa á Jodi­e og þegar hún brosti fattaði ég hver þetta var,“ segir Sig­ríður glað­beitt og heldur á­fram:

„Mér datt ekki í hug að spyrja hvernig henni líkaði Ís­land því ég var of upp­tekin að tala við þær um safnið.“

Hún segir að hópurinn hafi heillast af mununum sem finnast á safninu.

„Þær voru of­boðs­lega á­huga­samar um safnið og fannst þetta alveg stór­kost­legt. Þeim fannst synd að heyra að það væri ó­vissa um fram­tíðina og að það væri verið að selja hús­næðið því þær voru með ýmsar hug­myndir hvernig hægt væri að nýta alla þessa hluti. Þetta er náttúru­lega ein­stakt safn á heims­vísu, það var maður sem safnaði fimmtíu þúsund munum á sjö­tíu ára tímabili,“ segir Sig­ríður sem hefur unnið lengi á safninu.

„Þær voru báðar á sama máli að þetta væri ein­stakt lista­safn. Ég hef unnið hérna í sextán eða sautján ár og hef alltaf fengið er­lenda ferða­menn sem eiga ekki orð yfir því hvað þetta er safn er ein­stakt og þær voru á sama máli.“