Fjöl­miðla­jöfurinn Jimmy Lai hefur nú verið dæmdur í eins árs fangelsi fyrir ó­lög­mæta sam­komu vegna mót­mæla í Hong Kong í ágúst árið 2019 en á­kærurnar gegn honum voru í átta liðum og átti hann von á lífs­tíðar­fangelsi.

Lai, eig­andi App­le Daily News, hefur í­trekað gagn­rýnt af­skipti yfir­valda í Peking á Hong Kong en tvær á­kærur gegn honum féllu undir ný öryggis­lög sem tóku gildi í í fyrra og eru veru­lega um­deild. Nýju lögin fela í sér bann við and­ófi og niður­rifs­starf­semi í garð kín­verskra stjórn­valda.

„Það er okkar skylda sem blaða­menn að leita rétt­lætis. Svo lengi sem ó­rétt­látar freistingar blinda okkur ekki, svo lengi sem við leyfum ekki illskunni að ná til okkar, þá erum við að fram­fylgja skyldum okkar,“ sagði Lai í bréfi sem birt var af App­le Daily fyrr í vikunni.

Að því er kemur fram í frétt BBC voru þó nokkrir aðrir mót­mælendur dæmdir í fangelsi vegna mót­mæla í dag, þar af níu fyrir að taka þátt í mót­mælum þann 18. ágúst 2019 og þrír til við­bótar fyrir mót­mæli þann 31. ágúst 2019.

Síðast­liðna mánuði hafa þó nokkrir verið dæmdir í fangelsi til við­bótar fyrir ýmis mót­mæli en litið er á dómana sem á­fram­haldandi her­ferð yfir­valda gegn lýð­ræðis­sinnum í landinu.