Breski Verka­manna­flokkurinn hefur rekið Jeremy Cor­byn, fyrr­verandi leið­toga flokksins, úr flokknum eftir að jafn­réttis- og mann­réttinda­nefnd (EHRC) breska þingsins komst að þeirri niður­stöðu að Verka­manna­flokkurinn hafi gerst sekur um ó­lög­lega á­reitni og mis­munun í stjórnartíð hans. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Í maí í fyrra var til­kynnt að nefndin myndi taka Verka­manna­flokkinn til skoðunar, eftir ítrekaðar á­sakanir um að Cor­byn og aðrir flokksmenn væru með for­dóma gagn­vart gyðingum.

Cor­byn hefur árum saman verið sakaður um gyðinga­hatur og gengu sjö þing­menn úr Verka­manna­flokknum í fyrra vegna viðhorfi hans og annarra flokksmanna gagnvart á gyðingum.

Luciana Berger, einn þing­mannanna sem sagði sig úr flokknum, sagði þá að and­úð á gyðingum væri orðin stofnana­vædd innan flokksins. Henni þætti það vand­ræða­legt og að hún skammaðist sín of mikið til að vera á­fram í flokknum.

Í skýrslu mann­réttinda­nefndarinnar segir að Verka­manna­flokkurinn hafi gerst sekur um þrjú mismunandi brot á jafnréttislögum landsins. Þá kemur einnig fram að starfsfólk á skrifstofu Corbyn hafi haft pólitísk afskipti af þeim kvörtunum sem bárust gegn leiðtoganum.

Í niður­stöðum skýrslunnar segir að sú menning sem hafi verið við­höfð innan flokksins í stjórnartíð Corbyns, hafi í besta lagi ekki gert neitt til að koma í veg fyrir að gyðinga­hatur en í versta lagi hafi flokkurinn sam­þykkt for­dóma gagn­vart gyðingum.

Sir Keir Star­mer, nú­verandi leið­togi Verka­manna­flokksins, sagði niður­stöður skýrslunnar vera skammar­legar fyrir Verka­manna­flokkinn og lofaði hann breytingum strax á nýju ári.