Jeppa og jepplingaæðið sem runnið hefur á kaupendur í Bandaríkjunum náði nýjum hæðum í nýliðnum fyrsta ársfjórðungi ársins. Jeppar og jepplingar voru 68% af sölunni en fólksbílar aðeins 32%. Sala bíla í Bandaríkjunum var með ágætum á þessum 1. .arsfjórðungi og jókst um 2% frá árinu áður. Á þessum þremur mánuðum seldust 4.117.766 bílar og ekki nóg með að það hafi verið betri sala en 2017 þá var hún einnig betri en metárið 2016, sem var stærsta bílasöluár þar vestra frá upphafi. Vaxandi sala japanskra bílaframleiðenda hélt áfram á ársfjórðungnum og jók t.d Toyota markaðshlutdeild sína um 0,7% á meðan Ford tapaði 0,6%. Frábær sala Jeep bíla hélt áfram og jókst markaðshlutdeild Jeep í Bandaríkjunum um 0,7%. 

Á lúxusbílasviðinu náði Volvo eftirtektarverðum árangri og stóraukin sala Volvo bíla skýrði út helminginn af 2,9% aukningu í heildarsölu lúxusbíla. Sá lúxusbílaframleiðandi sem tapaði mestri hlutdeild var Lincoln, sem seldi 17% færri bíla en á fyrstu 3 mánuðunum í fyrra. Í jepplingaflokki náði Nissan Rogue (X-Trail í Evrópu) aftur sölutitlinum af Toyota RAV4. Sala Nissan Rogue jókst um 15% á ársfjórðungnum sem kannski telst ekki svo stórkostlegt í ljósi þess að salan í þessum flokki bíla jókst um 13%.