Hinn 10 ára gamli Adam átti sína síðustu daga á spítalanum Al Thawra, í grennd við hafnarborgina Hodeida við Rauðahaf í Jemen þar sem hlúð er að alvarlega vannærðum börnum. Þegar Juliette Touma heimsótti spítalann var Adam aðeins 10 kíló að þyngd. Hann var með alvarlegan heilaskaða.

„Hann lést nokkrum dögum eftir að ég heimsótti spítalann,“ segir Juliette í samtali við Fréttablaðið. Juliette er kynningarfulltrúi Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.

Örlög Adams eru langt í frá einsdæmi.

Átök stríðandi fylkinga upp­reisnar­manna Húta og hernaðarbandalags sem Sádi-Arabar leiða hafa farið stigvaxandi í Jemen. Nú hafa víglínurnar færst nær Hodeida, vígi Húta. Borgin er lífæð Jemen. Um 80 prósent af nauðsynjavörum og hjálpargögnum Barnahjálparinnar sem flutt eru til landsins koma í gegnum höfnina við Hodeida.

„Við flytjum nærri öll okkar hjálpargögn í gegnum Hodeida. Við höfum aðrar leiðir, en höfnin í Hodeida er ein sú mikilvægasta. Við höfum miklar áhyggjur af því núna að annaðhvort höfnin skemmist í átökum, eða í versta falli, að hún lokist algerlega. Þá mun okkur ekki að takast að koma hjálpargögnum til fólks. Auk þess sem innflutningur á mat, eldsneyti og annarri nauðsynjavöru lokast inn í allt landið,“ segir Juliette

Alvarlega vannærð

Á Al Thawra-spítalanum þar sem Juliette hitti Adam fyrir eru nú 59 börn. Af þeim eru 25 á gjörgæslu vegna vannæringar. Hún segir spítalann einn þann mikilvægasta í landinu en starfsmenn þar hafi greint frá því undanfarnar vikur að átökin færist sífellt nær spítalanum.

Í Jemen eru um 400 þúsund börn sem eru alvarlega vannærð. Juliette segir að það þurfi að bregðast við þessu ástandi sem fyrst, áherslur UNICEF undanfarna mánuði hafi verið á að reyna að ná til barna sem eru vannærð.

„Síðustu ár höfum við lagt meira í að berjast gegn vannæringu barna í Jemen, að reyna að koma í veg fyrir að fleiri börn verði vannærð,“ segir hún.

Hjálparstarfið nauðsynlegt

Juliette segir að það sé mikilvægt að greina vannæringu sem fyrst. UNICEF reyni því að starfa eins mikið og þau geta á vettvangi. Þau starfi bæði með öðrum hjálparsamtökum og heilbrigðisstarfsfólki frá Jemen sem fari á milli borga og bæja og veiti fólki heilbrigðisþjónustu á vettvangi.

Hún segir að þau sjái verulegan árangur af verkefnum sínum í Jemen. Fjöldi vannærðra barna hafi staðið í stað og þau hafi um einhverja stund núna ekki séð fjölgun. Til þess að ná enn betri árangri sé þó nauðsynlegt að þau geti haldið starfi sínu áfram og að hjálpargögn komist á vettvang.

„Þetta er ástæðan fyrir því að við verðum að fá að halda vinnu okkar áfram og að við fáum tækifæri til að leggja enn meira af mörkum til að ná til fleiri barna. Svo að börn eins og Adam lifi af, en deyi ekki,“ segir Juliette.

Saga barnanna í Jemen mikilvæg

Aðspurð hvernig Íslendingar geti lagt sitt af mörkum segir Juliette að það sé einkar mikilvægt að halda áfram tala um Jemen og að segja sögur barnanna í Jemen.

„Saga þessara barna er mikilvæg. Þetta eru einar mestu hörmungar í sögu heimsins og við horfum á þetta eiga sér stað. Ef einungis er litið til 21. aldarinnar eru þetta verstu hörmungar sem við höfum horft upp á,“ segir Juliette.

Hún segir það vera hneyksli að samhliða framförum í læknavísindum skuli börn enn deyja af völdum vannæringar, kóleru og niðurgangs á 21. öldinni.

„Því að þetta eru dauðsföll sem hægt er að koma í veg fyrir. Staðan í Jemen er af mannavöldum. Þetta eru ekki náttúruhamfarir. Allt sem á sér stað í Jemen er af völdum manna og ákvarðana þeirra.“

Hún segir afar mikilvægt að muna að hver og einn geti þrýst á stjórnmálamenn að beita sér fyrir því að átökunum linni í Jemen.

„Þessi styrjöld hefur leitt mannkyn á afar dimman stað, og þetta land í helvíti. Jemen er helvíti á jörðu fyrir börn,“ segir Juliette.

Það sem tekur við

Spurð hvort hún sjái fram á að aðstæður breytist í bráð í Jemen segist hún ávallt vongóð. Að átökunum muni ljúka og að vopn verði lögð niður. Þannig geti fólk í Jemen unnið saman að jákvæðri framtíð, bæði fólksins og landsins.

Hún tekur þó fram að þó að átökum myndi ljúka á morgun ætti Jemen langt í land því þar er gríðarleg fátækt.

„Ef átökin myndu hætta núna væri það mjög jákvætt. Fólk myndi þá fá tækifæri til að halda áfram með daglegt líf sitt og ná sér á strik eftir stríðið. Það gæti í sameiningu byggt upp það sem eyðilagðist í stríðinu. Unnið að því að koma á góðum stjórnmálum og stjórnsýslu með það að markmiði að allir geti lifað góðu lífi og haft sama aðgengi að grunnþjónustu eins og menntun og heilbrigðisþjónustu. En Jemen er mjög fátækt land svo það er margt sem þarf að gera þegar stríðinu lýkur,“ segir Juliette að lokum.

Til að styrkja starf UNICEF í Jemen er hægt að senda skilaboðin „Jemen“ í símanúmerið 1900 og gefa þannig 1.900 kr.