Jeep Wrangler jeppinn er af tiltölulega nýrri kynslóð og kom nýr á markað í fyrra. Það þýðir þó ekki að vel sé hugað að öryggisatriðum í bílnum þar sem sem hann fékk aðeins eina stjörnu í öryggisprófun Euro NCAP nýverið. Wrangler hafði áður fengið 3 stjörnur í bandaríska NHTSA prófinu, en þar eru gerðar minni kröfur til öryggiskerfa, sem forða eiga árekstrum. Í bílnum eru til dæmis ekki akreinavari né sjálfvirk hemlun. 

Í árekstrarprófunum fékk bíllinn svo herfilega einkunn, eða 56,7% og er leit að verri einkunn fyrir svo stóran bíl. Jeep Wrangler kemst þó ekki eins nærri botninum í öryggisprófunum og Fiat Panda sem fékk nýlega enga stjörnu hjá Euro NCAP. Bæði Jeep Wrangler og Fiat Panda eru framleiddir af Fiat Chrysler Automobiles, en þó sitthvoru megin Atlantshafsins.